Andvari - 01.07.1962, Qupperneq 99
ANDVARl
SKÚLI MAGNÚSSON OG UPPHAF REYKJAVÍKUU
209
voru öll byggð úr grjóti og torfi. Vinnumannabústaður var byggður þar sem
liinn gamli skáli Reykjavíkurjarðar var, sunnan Grjótagötu. Á malarkambin-
um niður við sjó, rétt fyrir austan hús Johnson & Kaaber, var færasnúningshús.
Inni við Elliðaár áttu stofnanirnar þófaramyllu og litunarhús, sem síðar var
flutt til Reykjavíkur og komið fyrir á slóðum Herkastalans. Sum þessara húsa,
sem nú voru nefnd, voru allálitleg, hið stærsta 25 álnir á lengd, og árið 1759
voru öll húsin metin til 7240 rd.
Þessi hús stofnananna þar sem þau voru staðsett í útjaðri kvosarinnar urðu
fyrsti kjarni þeirrar Reykjavíkur, sem við þekkjum í dag, mjór en mikils vísir,
þótt örlög þeirra yrðu að ýmsu leyti dapurleg, þegar miðað er við það hlutverk,
sem þeim var ætlað að inna af hendi. Af nöfnum húsanna má sjá, að Skúli
hefur ekki aðeins ætlað að koma íslenzkri ull í dúka og klæði, heldur tekur
hann upp sútun skinna, tunnugerð og færagerð. Við þetta bættist brennisteins-
vinnsla í Krísuvík og útgerð fiskidugganna. En það verða oft óhöpp í fyrsta
leik, ótíð og fiskileysi hömluðu dugguútgerðinni, enda þóttu skipin óheppileg
til fiskveiða og þung í vöfum, af öllum fyrirtækjum stofnananna var fjártjónið
mest af þeim, urn 20.000 rd. á árunum 1752—1759. Árið 1754 segir frá því,
að allt verkafólk stofnananna liafi orðið að hrekjast á brott vegna matarleysis
og eldiviðarskorts. Þegar gerðir eru upp reikningar stofnananna árið 1759 kemur
í Ijós, að hallinn á þeim allur nemur um 41.000 rd. Frá sjónarmiði bókhaldarans
var þetta lélegur árangur.
En þegar könnuð er saga stofnananna þá verður ljóst, að þær áttu lengst
af mjög undir högg að sækja þar sem voru hin dönsku verzlunarfélög, er drottn-
uðu yfir viðskiptalífi Islands, Elörmangarafélagið fyrst og síðar Almenna verzl-
unarfélagið. Hinir dönsku einokunarkaupmenn skildu það snemma, að stofn-
anir Skúla Magnússonar voru hættulegar þeim verzlunarháttum, sem þeir höfðu
vanizt á íslandi hátt á aðra öld, að hin lágreistu hús, sem kúldruðust þarna í
kvosinni, voru upphaf nýrra tíma. Frá upphafi stofnananna ætluðu hinir dönsku
einokunarkaupmenn að kæfa þær, ef ekki í fæðingunni, þá eins fljótt og auðið
væri. Þeir neituðu að selja stofnununum ull og skinn nema þeir fengi sama
vcrð fyrir og í Kaupmannahöfn. Þeir reyndu að kaupa upp ull af bændum svo
tóvélar stofnananna stæðu aðgerðalausar. Þegar danska stjórnin ætlaði að skipa
Hörmangarafélaginu að kaupa klæðvöru stofnananna birgðu þeir sig að klæði
frá danskri verksmiðju svo nægja mundi til margra ára og þóttust ekki geta
keypt rneiri birgðir. Sérstaklega var félaginu illa við það leyfi, er Skúla hafði
verið veitt, að flytja vörur milli landa á duggum stofnananna. Með því var
rofið skarð í sjálft einokunarkerfið. Hörmangarar kærðu því Skúla fyrir brot
á verzlunarskilmálunum og óleyfilega verzlun. Þrátt fyrir málamiðlun stjómar-