Andvari - 01.01.1992, Qupperneq 45
ANDVARI
SIGURÐUR GUÐMUNDSSON
43
Árið 1928 birtir Sigurður ritgerð um Galdra-Loft Jóhanns Sigur-
jónssonar í Rétti. Greinin er löng, 35 blaðsíður, og ber mörg bestu
einkenni höfundar síns:
Þyngsta gáta mannlegs lífs er lífið sjálft. Mikil skáldrit eru myndir af mann-
legu lífi, sköpum og skaphöfnum, ástríðum og ósigrum, og einkum af or-
saka-bandinu mikla og marg-flókna milli eðlis vors alls, andlegs og dreng-
skaparlegs, annars vegar. og örlaga vorra og afreka á hólmi lífsins hins veg-
ar. En af því leiðir aftur, að sum hin allra mestu skáldrit eru gátur, erfiðar
viðfangs, að nokkru óráðandi, þótt þau bóka best skerpi skilning vorn á
sjálfum oss, kjörum vorum og baráttu. . .
Menningargildi skáldskapar felst, meðal annars, í því að hann hvessir
skilning vorn á mannlegu lífi, kennir, í orðum og látbragði mannlegra tilfinn-
inga, „málamjöt of mannasjöt“, sem Egill Skallagrímsson kvað. Öll mikil-
væg skáldrit eru, að þessu leyti, uppeldisrit, þótt slíkt láti vísast illa í eyrum
bókmenntafróðra, sem löngum einangra bókmenntir frá lífinu. Bókvit og
mannvit fer oft eigi saman. Skilningur á skáldskap er því skilningur á skiln-
ingi, ef svo staglsamlega má að orði kveða. . . Efnisval er eigi alls kostar
heppilegt heiti. . . Oft er sanni nær, að efni velji skáld en skáld velji efni.
Slíkt orðalag er þó villandi. Efnið kveikir í skáldinu, hrífur hann. Því lýstur
sem eldingu í hug honum. Það verður honum að vitrun eða skuggsjá. I
skuggsjá efnisins kennir skáldið sjálfs sín reynslu, sorgir og sælu eða skilning
sinn á lögmálum lífs og sálar.38
Frá þessum almennu hugleiðingum hverfur Sigurður að Jóhanni og
fararefnum hans í „útlegðina“, síðan að leikritinu sjálfu sem hann
gagnrýnir af djúpum skilningi.
Á þriðja áratugnum vann Sigurður að sögu norðlenska skólans,
riti er ekki var prentað fyrr en áratug eftir að hann féll frá. Þetta er
mikið rit og heitir Norðlenski skólinn, er hátt á fimmta hundrað síð-
ur, enda geymir það meira en skólasöguna. Hún er fleyguð af inn-
skotum og útúrdúrum, hugleiðingum Sigurðar um margvíslega fleti
mannlegs lífs, en einkum þó um skólamál. Þetta rit geymir mikla
sögu og er góð náma fyrir þá sem vilja kynnast skoðunum Sigurðar á
menntun og uppeldi.
Árið 1944 er Ævisaga Bjarna Pálssonar landlæknis gefin út að nýju á
Akureyri og Sigurður fenginn til að rita formála. Sá formáli vex í hönd-
um hans og verður að þætti um höfund ritsins, Svein Pálsson lækni og
vísindamann, en hann hafði lengi verið Sigurði hugstæður. I þessum
formála kemur Ijóslega fram áhugi Sigurðar á rúnum og rökum manns-
sálarinnar: „. . . að náið er samband milli mikilla gáfna og geðs-