Andvari - 01.01.1992, Page 125
ANDVARI
SAMRÆÐA UM LIST OG VÍSINDI
123
Þau ólíkindi með okkur sem mér þykja mest um verð eru ekki þau að Sig-
urður sér tvennt - List og Vísindi - þar sem ég vil helzt sjá eitt. Þau eru
miklu fremur hin að Sigurður sér söguleg stórmerki - andleg afrek og
atómsprengjur til dæmis, og gervalla menningarsögu Vesturlanda - á með-
an ég er allan tímann að hugsa um hluti eins og Maístjörnuna, lítið lag við
þrjár hógværar vísur. Ég er einhvern veginn þannig gerður - það háir mér
ugglaust nokkuð sem heimspekingi - að ég get ekki hugsað um List með
stórum staf eða Vísindi með stórum staf. Ég verð að fá að hugsa mér dæmi
eins og Maístjörnuna eða nýja ritgerð um merkingu og sannleika eftir ung-
an amerískan heimspeking sem svo vill til að ég var að lesa í gær. Ég hef
verið að bera því vitni að þegar ég hugleiði allt í senn - vísurnar, lagið og
röksemdafærsluna í ritgerðinni - þá slær það mig hvað margt er líkt með
þessu þrennu. Ég er nokkurn veginn viss um að ef ég fengi að halda hér
klukkutíma fyrirlestur um sannleika og merkingu þá mundu aðrir sjá þetta
líka. Heilsteypt röksemdafærsla er eins og heilsteypt laglína eða heilsteypt
kvæði.
En ég á að leggja áherzlu á það áður en ég hætti að þetta er ekki nema
tilfinning mín sem um er að ræða, óljóst hugboð sem ég kem ekki neinum
fastari tökum á, til dæmis ekki sem heimspekingur. Það hefur verið köllun
heimspekinnar í meira en 2500 ár að svara því hvað hugsun sé. í þessu
skyni hafa heimspekingar búið rökfræðina til, og með rökfræðina að vopni
hefur okkur tekizt að búa til tölvur. Tölvur eru vélar sem hugsa. En við er-
um alveg jafnnær um það hvernig við hugsum. Við vitum ekki hvernig ég
fer að því að segja það sem ég er að segja núna til dæmis, og þið að því að
skilja það.
Ef nútímaheimspekingur er spurður að því hvað hugsun sé byrjar hann
þegar í stað að tala um mál og merkingu, því að um þau efni eigum við
nokkur drög að tiltölulega fáguðum kenningum. En við sjáum strax á
dæmum að það er hægt að hugsa án máls og merkingar. Til dæmis er heil
hugsun í góðu lagi án þess að nokkur tónn í laginu merki neitt. Það er líka
heil hugsun í fallegri mynd án þess að myndin sýni neitt annað en sjálfa sig.
En heimspekin á tuttugustu öld er ekki Iengra komin í viðureign við hugs-
unina en svo að hún glímir aðeins við málið og merkinguna. Þess vegna
getur samanburðurinn á list og vísindum sem mér þykir - að minnsta kosti
oft - vera svo nærtækur ekki orðið annað en tóm hugboð og heilaköst.