Andvari - 01.01.1992, Page 155
ANDVARI
ÍSLAND OG „EVRÓPUSAMRUNI" MIÐALDA
153
VI
Það er svo annað mál, að nýmóðins lýsingar á Sturlungaöld, yfirvegaðar og
æðrulausar, gera hana ekki að neinni alhliða gullöld. Menningarleg afrek
hennar - og nú horfum við auk fornbókmenntanna á sem flest svið lista og
mennta - þau ber vissulega við dökkan bakgrunn ófriðar og valdastreitu.
Auk þess verðum við líklega að líta á 13. öldina sem efnahagslegt hnignun-
arskeið. Frásagnir annála og annarra rita af hallærum og hungurdauða fá
stuðning af niðurstöðum náttúruvísindanna um kólnandi loftslag, en þar
gat lítil þúfa velt býsna þungu hlassi í hinum viðkvæma sveitabúskap fs-
lendinga. Nýjustu rannsóknir styðja líka frásagnir af skaðvænlegum jarð-
eldi. Kannski voru það eftirköst eldgosa sem röskuðu valdajafnvægi við
Faxaflóa og gáfu Snorra Sturlusyni eitt af sínum útþenslutækifærum.1'
Svo hefur menn löngum grunað að 13. öld hafi verið tími vaxandi mis-
skiptingar: sjálfseignarbændum hafi fækkað, snauðum leiguliðum á jörðum
höfðingja eða kirkna hins vegar fjölgað. Það virðist þó óvíst hvort leigubú-
skapur hefur ekki orðið almennur miklu fyrr.14
Sama má víst segja um þá kenningu að hörgull á seljanlegum útflutnings-
vörum hafi valdið Islendingum þrengingum á Sturlungaöld. Vafalaust var
þetta vandamál, en hitt er óljósara hvort tímabilið á undan var svo miklu
betra að þessu leyti; kannski var alltaf erfitt um útflutningsvörur þangað til
fiskurinn kom til sögunnar og tengdi ísland við umheiminn á allt annan
hátt en 13. öldin gat látið sig dreyma um.15
VII
„Borgarastyrjaldir“ voru hluti af skýringunni á Sturlungaöld í orðabók
Blöndals. Það er að vísu heldur stórt orð. Einar Ól. Sveinsson hikar við að
nota það um Sturlungaöldina, þar sem fremur sé um að ræða „deilur milli
höfðingja“ þar sem „flestallt illt kemur niður á þeim og vinum þeirra“.16
Þó var Sturlungaöldin vissulega ófriðarskeið. Ekki hið eina í Islandssög-
unni, fjarri því; og er þó samanburður villandi að því leyti að við vitum svo
miklu meira um atburði Sturlungaaldar en margra tímabila bæði fyrr og
síðar. Til dæmis var nafnið „friðaröld“ farið að festast við ákveðið tímabil
þjóðveldissögunnar, en nú sést það sjaldan notað af því að menn eru farnir
að átta sig á að þetta er bara tímabil sem aðallega er þekkt af biskupasög-
um og ámóta ritum; saga veraldlegra höfðingja er þá lítt eða ekki skráð og
þess vegna fer fáum sögum af átökum þeirra og vopnaviðskiptum. Og 400
ára friðarskeiðið sem Arngrímur lærði talar um, það fær auðvitað með
engu móti staðist.