Andvari - 01.01.1992, Side 166
164
ARNHEIÐUR SIGURÐARDÓTTIR
ANDVARI
Konunglega bókasafnsins. Fyrsta bókin, sem hann fær léða er Englands-
saga breska ritsnillingsins Macaulay í danskri þýðingu. Bersýnilega hefur
Guðmundur vanist að nota bókasöfn og í Bókasafni Austurlands mun
hann hafa kynnst ritgerðasafni Macaulays er var í eigu þess.
Eftirtektarvert er, að Guðmundur fær ekki léð nein samtíðarskáldrit,
þótt skáldsagan væri þá hin drottnandi bókmenntagrein, hins vegar má sjá,
að hann hefur fengið að láni leikrit eftir Shakespeare og Schiller (Hamlet,
Meyna frá Orleans o.fl.), en einnig íslensk sagnarit.
Að sjálfs hans sögn hafði hann aðgang að bókasafni prentara í Höfn, en
hverjar bækur hann hefur þar fengið er nú ókunnugt, þar sem safnið hefur
verið lagt niður í upphaflegri mynd, og ókleift virðist að komast fyrir um,
hvar reytur þess hafa lent. En þess verður ekki vart, að hann hafi hrifist af
dönskum skáldsagnahöfundum, eins og skýrt kemur fram í bréfum síðar -
jafnvel ekki Henrik Pontoppidan, er stóð um þetta leyti á hátindi frægðar
sinnar - og fjallaði löngum um kjör fátækra, undirokaðra bænda. En
Georg Brandes dáði hann sem andlegt ofurmenni.
í bréfi til Þorvalds Thoroddsen, stfluðu 12. febrúar 1897, farast Guð-
mundi svo orð:
„Ég get naumlega dulið þá gleði mína, að í dag - 25. fæðingardag minn -
hef ég fengið afgjörandi svar frá „Raben-Levetzauske-Fond“, þar sem mér
eru veittar 300 krónur til „dramaturgiske og sceniske Studier“.“
Bréfinu lýkur með einlægum þakkarorðum til Þorvalds, en hann mun
hafa veitt Guðmundi einna mest liðsinni varðandi styrkveitinguna.
Heima á íslandi voru einnig aðilar, sem ekki höfðu misst sjónar á iðn-
nemanum í Höfn. Hinn 1. apríl 1897 birti Austri þá fregn, að prentari Guð-
mundur Magnússon hefði hlotið áðurnefnda styrkveitingu úr Raben-
Levetzauske-Fond, en að auki 100 króna styrk frá Det Classenske Fi-
deicommis. Jafnframt er þess getið, að hann hafi fengið aðgöngu að Dag-
mar-leikhúsinu.
Fregn þessi hefur vafalítið þótt tíðindum sæta. Enginn íslendingur hafði
fyrr lagt stund á þá grein, sem Guðmundur hlaut styrk til, en jafnframt
voru þessar styrkveitingar frá einhverjum hinna virðulegustu sjóðstofnana í
Danmörku. Líklegt má telja, að Skafti Jósefsson hafi verið með í ráðum
varðandi Classens-sjóðinn. Sonur hans, Þorsteinn Skaftason, dvaldist í
Kaupmannahöfn um þetta leyti og kynnti sér prentverk, og hefur Guð-
mundur vafalaust notið liðsinnis hans. Enda urðu kynni hans af fjölskyldu
Skafta Jósefssonar í heild hin þroskavænlegustu.
A Hafnarárunum og síðar stóð Guðmundur í bréfasambandi við bróður
sinn, Jón, og að einhverju leyti við móður sína, en þau bréf eru nú glötuð
og því fátt um beinar heimildir um hagi hans. Það kemur hins vegar fram í
dagbókarþáttum frá síðari utanförinni, að hann telur sig hafa mætt rætni af