Prestafélagsritið - 01.01.1922, Side 96
92
Jón Helgason:
Prestafélagsritið.
spotti. Yfirleitt eru fornrit vor rík að dæmum þess hversu
heiðnir höfðingjar víkingaaldarinnar hafi slitið öllu sambandi
við hina fornu guði feðra sinna. Vantrúin á þeim, á mætti
þeirra, vitsmunum þeirra, réttsýni þeirra o. s. frv. er orðin
mjög almenn. Ut á við verður hennar sérstaklega vart við
það, hversu menn gerast tregir til að blóta, þ. e. að sýna
guðunum þá lotningu sem bar. Slíkur vantrúarmaður var, svo
sem kunnugt er, Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs. »Hjörleifur vildi
aldrei blóta« segir í Landnámu. Ingólfur aftur á móti var
»trúaður« blótmaður. Landnáma getur um þrjá menn, sem
báru viðurnefnið »guðlauss«. Um tvo þeirra segir, að þeir
hafi ekki viljað blóta, en um hinn þriðja, að hann hafi trúað
á mátt sinn og megin, sem í raun réttri var sama sem að
þeir vildu ekki vera upp á guðina komnir, en »sjálfir leiða
sjálfa sig«. Trúin á »mátt sinn og megin« er birtir oss fast-
mótaða sjálfstæðisþrá hins germanska ættstofns, virðist hafa
verið mjög algeng á þeim tímum. Trúar-fráhvarfið gerði alstaðar
meira og minna vart við sig. Eins og andvarp mæddrar sálar
hljóða orð Hallfreðs vandræðaskálds:
láta allir ýtar
Oðins ætt fyrir róða,
nú er eg neyddur frá Njarðar
niðjum Krist að biðja.
Og hvatirnar gátu verið margvíslegar, Fyrir surnurn réð það
mestu um fráhvarf þeirra, að þeim þóttu goðin hafa brugði$t
sér. Þegar Hrafnkell Freysgoði hafði látið sinn hlut fyrir
Sámi og frétti hvernig komið var fyrir Freyfaxa, verður hon-
um að orði: »Aldrei skal eg á goð trúa«. Og Víga-Glúmur
hatast við Frey alla æfi, því að hann kendi honum um það
þegar hann var flæmdur burt frá Þverá.
En jafnframt þessu fráhvarfi frá heiðnum átrúnaði gerir
hins vegar vart við sig hjá mörgum þrá eftir því, er betur
fái svalað trúarþörf þeirra en hinn forni átrúnaður, og heilagt
hugboð um guðdóm, er sé háleitari og mátkari en hin heiðnu
goð, hugboð, sem birtist í hreinni og göfugri hugmyndum um
guð. Alkunn er í því tilliti hin sígilda frásaga Landnámu um