Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Page 60
TVÆR STEFNUR - TVENNS KONAR HEFÐIR í KENNSLU UNGRA BARNA
skóladagurinn er orðinn margfalt lengri. Fyrir fimm árum var gefin út ný aðal-
námskrá fyrir grunnskóla (Aðalnámskrá grunnskóla, 1999) og töluvert hefur verið
gefið út af nýju námsefni fyrir nemendur í 1. bekk grunnskólans.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða störf leikskólakennara og grunnskóla-
kennara við þær aðstæður sem nú hafa skapast, í því skyni að öðlast betri skilning á
hefðum og hneigðum í kennslu yngri barna. Kannaðar eru kennsluaðferðir leikskóla-
kennara sem vinna með elstu leikskólabörnunum og grunnskólakennara í fyrsta
bekk grunnskólans. Hérlendis hafa fáar rannsóknir verið unnar þar sem sjónarhorn-
inu er beint að þeim breytingum sem verða þegar barn flyst úr leikskóla í grunnskóla
og ólíkum hefðum og hneigðum þessara stofnana. Rannsókn þar sem störf leikskóla-
kennara og grunnskólakennara eru skoðuð og skýringa leitað á því hvað mótar störf
þessara starfsstétta, er leið til að átta sig á þessum mun.
BAKGRUNNUR
Starfshættir leik- og grunnskóla
Starfshættir grunnskóla og leikskóla eru víðast hvar í heiminum talsvert ólíkir. Leik-
ur og umönnun hafa verið megineinkenni leikskólans, en hópkennsla og áhersla á
námsgreinar hefur einkennt grunnskólann (File og Gullo, 2002; Hansen, 2002; Kagan,
1991). Þessar mismunandi áherslur má glöggt sjá hér á landi í lögum og aðal-
námskrám skólastiganna. Þó að meginmarkmiðin sem sett eru fram í lögunum séu
að verulegu leyti sambærileg, þá eru lögin frábrugðin að því leyti að lög grunnskól-
ans leggja áherslu á þekkingu, færni og mat, en lögin um leikskóla á umönnun, hollt
uppeldisumhverfi og leik (Lög um grunnskóla, 1995; Lög um leikskóla, 1994).
Almenn markmið sem sett eru fram í aðalnámskrám skólastiganna eru einnig sam-
bærileg, en áherslur eru ólíkar þegar kemur að útfærslum og starfsháttum. í sam-
ræmi við lögin eru megináherslur aðalnámskrár leikskóla á leik, skapandi starf, lífs-
leikni, nám í gegnum daglegar venjur og samþætt vinnubrögð. Aðalnámskrá grunn-
skóla leggur á hinn bóginn megináherslu á kennslu ólíkra námsgreina (Aðalnámskrá
grunnskóla, 1999; Aðalnámskrá leikskóla, 1999).
Rannsóknir í íslenskum leikskólum og í fyrsta bekk grunnskóla staðfesta þessa
ólíku starfshætti og áherslur. Umönnun, leikur og samskipti eru í brennidepli í leik-
skólanum, en námsgreinar og kennsluaðferðir skipta mestu máli í grunnskólanum
(Jóhanna Einarsdóttir, 2001, 2003a; Rannveig Jóhannsdóttir, 1997). íslensk leikskóla-
börn virðast einnig vera meðvituð um þennan mun og taka hann sem gefinn
(Jóhanna Einarsdóttir, 2003b).
Erlendar rannsóknir á starfsháttum leik- og grunnskóla hafa einnig leitt í ljós ólík-
ar áherslur skólastiganna. í Bandaríkjunum komust Hains, Fowler, Schwartz,
Kottwitz og Rosenkoetter (1989) að því að leikskólakennarar lögðu meiri áherslu á fé-
lagsleg samskipti og tjáskipti heldur en kennarar í forskólabekkjum (kindergarten),
sem lögðu meiri áherslu á aga, stjórnun og að börnin færu eftir fyrirmælum. Fuqua
og Ross (1989) komust einnig að því að skólastjórar og grunnskólakennarar töldu að
börn í fyrstu bekkjum grunnskóla og forskóla ættu að nota mestan tíma í skólum í
58