Uppeldi og menntun - 01.09.2004, Page 95
VANDA SIGURGEIRSDÓTTIR OG SIF EINARSDÓTTIR
og vanbúnaði þegar þeir þurfa að taka á því. Með þjálfun og fræðslu væri hægt að
auka færni kennaranna á þessu sviði og minnka þannig líkur á að þeir finni fyrir
þessum neikvæðu tilfinningum en ekki er ólíklegt að þær valdi því að einhverjir
kennarar forðist að takast á við vandamálin.
Rannsóknir hafa sýnt að oft leita nemendur seint eða ekki til kennara með einelt-
ismál (Sudermann o.fl., 1996) en það er þó forsenda þess að kennararnir grípi inn í.
Kennarar telja að næst á eftir skorti á þjálfun og fræðslu sé það upplýsingaskortur frá
nemendum sem helst kemur í veg fyrir að þeir taki á einelti með farsælum hætti.
Næstum allir kennararnir töldu að nemendur þyrðu ekki að segja frá einelti sem þeir
verða fyrir. Mikilvægt er að bæta úr þessu og er ein leiðin til þess að þjálfa og fræða
kennarana þannig að þeir viti hvernig hægt er að skapa umhverfi þar sem nemend-
um finnst óhætt að segja frá einelti.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda allar í sömu átt: búa þarf kennaranema fag-
lega og persónulega undir að glíma við einelti og nálgast þarf málið á heildstæðan
hátt. Það þarf færni á mörgum sviðum til að geta tekist á við einelti. Greinilegt er að
kennurum finnst mikið vanta á þessu sviði í kennaranámi og er ljóst að úr því þarf
að bæta. Einnig kemur skýrt fram að kennarar geta ekki tekist einir á við þetta alvar-
lega vandamál. Þeir þurfa stuðning frá skólastjórnendum, samkennurum, foreldrum
og nemendum. Vert er að benda á að kennaranám er aðeins þriggja ára langt og starf
kennarans er orðið mun viðameira en það var áður. Því vakna spurningar um hvort
þriggja ára nám dugi kennaranemum til að öðlast alla þá þekkingu og færni sem
krafist er af þeim í starfi og þar með talda þekkingu á einelti og viðbrögðum við því.
Helsti gallinn á þessari rannsókn er að hlutfall kennara af landsbyggðinni og úr
höfuðborginni var ekki það sama í úrtakinu og í þýðinu. Munur reyndist vera á
nokkrum spurningum en við teljum að hann hafi í raun lítil áhrif á meginniðurstöð-
urnar sem eru afgerandi. Túlka ber þó niðurstöðurnar með þennan fyrirvara í huga.
En þrátt fyrir það gefur rannsóknin mikilvægar upplýsingar um hvar skóinn krepp-
ir í fræðslu kennara á landinu öllu í þessum málaflokki. Rannsókn þessi hefur fyrst
og fremst hagnýtt gildi og veitir mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nota til að
styðja betur við bakið á kennurum. Flestar eineltisrannsóknir snúa að börnum og
reynslu þeirra af einelti. Fáar rannsóknir hafa aftur á móti verið gerðar á kennurum
og þekkingu þeirra og mati á eineltismálum.
Einelti er eitt alvarlegasta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í grunnskól-
um landsins. Með öflugum forvörnum og þekkingu á einelti er hægt að búa til um-
hverfi þar sem einelti er ekki liðið. Til þess að það sé hægt er þörf á vel menntuðum
kennurum, sem hafa þekkingu til að skapa öruggt og jákvætt andrúmsloft þar sem
unnið er að eflingu félagsþroska, félagsfærni og sjálfsmyndar nemenda - kennara
sem hafa færni til að takast á við þau fjölmörgu vandamál sem koma upp í skóla-
starfi, þar á meðal einelti. Ein möguleg leið er að lengja kennaranám, bæta kennslu á
sviði eineltis, samskipta og agastjórnunar og búa þannig kennaranema enn betur
undir það fjölbreytta og oft erfiða hlutverk sem bíður þeirra í skólum landsins.
93