Hlín - 01.01.1953, Blaðsíða 155
H lín
153
— Jeg hafði alloft undanfarið hugsað um það og langað til að
sjá það í heild, kunni ein tvö erindi í því, og mintist þess, að
sem barn hafði jeg oft heyrt afa minn kveða það með sinni
fallegu rödd. — Þú getur því nærri, að mjer þótti vænt um að
sjá það í „Hlín“. — Slík trúarljóð geta vissulega átt erindi, því
innanum allan ysinn, þysinn og hverfleikann gerir trúarþörfin
og þráin meira og minna vart við sig.
Úr Vopafirði er skrifað veturinn 1953: Alt gengur hjer sinn
vanagang og bara ágætlega í blessaðri góðu tíðinni, sem er með
eindæmum góð yfir alt Austurland. — En búið er nú líka vont
að ganga undanfarin misseri. — Vont var nú í Bjarnarey s.l.
vor, og erfitt að eiga við þau vandræði, sem þar steðjuðu að, þar
sem fleiri hundruð af varpfuglinum dó víðsvegar um alt varpið,
og oft á eggjunum í hreiðrunum. — Það gat ekki hjá því farið,
að það hrærði viðkvæma strengi að hugsa um, hvað þessar
blessaðar mæður hafa kunnað að líða áður en yfir lauk. En
þær yfirgáfu ekki eggin sín, höfðu líklega oft ekki mátt til þess.
— Jeg get nú ekki verið viss, hvort þarna hefur einvörðungu
verið kuldinn að verki eða e. t. v. einhver plága, sem kuldinn
hefur þá verkið á. — Það eru skiftar skoðanir um það, þó gæti
það vel verið bara kuldinn. — Jeg var að hugsa um að senda
þjer línu um þetta úr Bjarnarey. ef þjer hefði fundist það vera
nokkuð fyrir ,,Hlín“, en það varð samt aldrei af því fyrir mjer,
enda vorum við sjaldan í skapi til að skrifa þar, þó hefði það
mátt takast, ef dugnaði hefði verið beitt, og víst mátti margt um
þetta segja. — O.
Úr Norður-Þingeyjarsýslu er skrifað á jólaföstu 1952: Nýlega
bauð Kaupfjelagið á Kópaskeri öllum konum af fjelagssvæðinu
í samsæti, sem haldið var í tilefni af því að vígður var björgun-
arbátur. — Hann hlaut nafnið „Bræðraborg", og var og er
helgaður minningu eldri Brekkubræðra, scm öll fyrstu ár
Kaúpfjelagsins önnuðust fram- og uppskipun — á smákænum
— með frábærum dugnaði. — Þarna vorum við samankomnar
99 konur og mjög ánægðar og þakklátar eftir glaðan dag — S.
Ncmandi frá Tóvinnuskólanum skrifar úr Dýrafirði vetur-
inn 1952: Nú gengur vefnaðaralda yfir sveitina. — Kvenfjelagið
fjekk tvist, sem konunum var seldur. — Við erum þrjár um
kaffidúka, settum upp í tvíbreiðan vefstól, sem kvenfjelagið
fjekk í vetur. — Svo er einn af ykkar gömlu nemendum að vefa
áklæði á stóla og ætlar að vefa handklæði. — Einn ungi maður-
inn hjerna smíðaði lítinn vefstól (hann er ekki stíginn), og við
settum upp í hann leirþurkur, þeir vefa sjálfir í honum, karl-
mennirnir. — Maðurinn minn óf í honum, áður en hann fór til