Tímarit Máls og menningar - 01.05.1945, Blaðsíða 103
UM UPPHAF ÍSLANDS OG ALDUR
93
storknaði, þar til er næsti jarðeldur rann þar yfir. Þau eru jarð-
vegur þess tírna, aurar, eyrar, sandar, leirur, mold og torf — allt
saman harðnað að steini undir fargi jarðlaganna, sem yfir liggja.
Gróðurleifarnar finnast einkum í vissum leirsteinslögum. Þær eru
ýmist orðnar að koli eða algerlega steinrunnar (kíslaðar). Sums
staðar mynda þær dálítil kolalög, og eru kolin nefnd surtarbrandur.
Þau hafa stundum verið unnin lítið eitt til eldsneytis, einkum á
ófriðartímum (t. d. í Botni í Súgandafirði). í sjálfum surtar-
brandinum eru gróðurleifarnar svo saman þjappaðar og ummynd-
aðar, að þær eru yfirleitt óþekkjanlegar. En í leirsteininum, sem
brandinum fjlgja, hafa plöntusteingervingar sums staðar geymzt
ágætlega. Þar má finna stofnbúta, heil blöð og aldin, og sjást liinir
upphleyptu æðastrengir blaðanna sums staðar eins greinilega og á
lifandi laufblaði. Frægustu fundarstaðir þessara jarðnesku leifa
löngu horfins lífs eru í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði, hjá Brjáns-
læk á Barðaströnd, í Mókollsdal í Strandasýslu og við Hreðavatn
í Norðurárdal. Steingervingarnir, sem unnt er að þekkja, eru eink-
um leifar af stórvöxnum trjágróðri. Þeir sýna, að þarna hafa vaxið
skógar, m. a. af stórvöxnum barrviðum, beyki, eik, hlyn, elri og
fleiri trjátegundum, sem nú vaxa ekki villtar hér á landi. Loftslag
það, sem þessir skógar gátu þrifizt í, hlýtur að hafa verið a. m. k.
engu ómildara en loftslag er nú í sunnanverðri Mið-Evrópu. í Húsa-
víkurkleif hafa fundizt gildir trjábolir og tómar holur eftir trjá-
stofna, sem hraunflóð hefur runnið utan um og sviðið.
Steingervingar þessa sama gróðurfélags finnast einnig í sams
konar surtarbrandslögum í sumum grannlöndum vorum: á Skot-
landi, í Færeyjum, á Grænlandi og Svalbarða. Síðustu rannsóknir
sérfræðinga í forngrasafræði hafa leitt í Ijós, að þessi gróður var
uppi snemma á tertíerlímanum (nánar til tekið, á því tímabili
hans, sem nefnist eósen). A Grænlandi og Svalbarða staðfestist
þessi niðurstaða af dýrasteingervingum, sem finnast í sömu jarð-
myndun og gróðurleifarnar og ekki er um að villast, að eru frá
eósentímabilinu. Af þessu er sýnt, að surtarbrandslögin eru mynduð
á þessu fyrsta skeiði tertíertímabilsins, og væntanlega eru þá blá-
grýtislögin (hraunin), sem næst þeim liggja, bæði undir og yfir,
einnig frá þessu tímabili.