Tímarit Máls og menningar - 01.05.1945, Blaðsíða 116
JÓN ÓSKAR:
Ég hef gleymt einhverju niðri
Einu sinni bjó ég niðri í kjallara í slæmu herbergi. Vinir mínir
komu þá oft og heimsóttu mig og við vorum ágætir félagar, ég get
ekki neitað því. En nú er ég kominn upp á þriðju hæð og bý í prýði-
legu herbergi. Þá er þar til máls að taka, að ég var búinn að græða
mikla peninga og var orðinn svo nískur, að ég tímdi ekki lengur
að lána vinum mínum túkall, nema ég fengi rentur. Ég var með lífi
og sál í gróðabrallinu. Ég fór á fætur snemma á morgnana til að
græða. Ég hafði úti allar klær, beitti allskyns brögðum og sópaði
að mér peningum á báða bóga. Það sem máli skipti í heiminum voru
peningar. A kvöldin reiknaði ég út gróða dagsins, eftir því sem
næst varð komizt, og sjá, það var harla gott. En er þetta nú heiðar-
legt? spurði ég sjálfan mig, og fór að hugleiða, hvernig ég prettaði
fólk, og hversu ég mældi fólkið út í peningum. En hvernig sem ég
velti þessu fyrir mér, komst ég ævinlega að þeirri niðurstöðu, að
þetta væri mjög heiðarlegt og réttlátt, því að í þessum heimi gildir
ekki annað en berja á nasir meðbróður vors, áður en hann hefur
barið á vorar eigin nasir.
En nótt eina sit ég í herbergi mínu, þreyttur eftir gróðabrall
dagsins, hugsandi um ýmislega hluti. Og þá er það skömmu fyrir
miðnætti, að mig grípur einhver óhugur, og hvernig sem ég fer að,
tekst mér ekki að vera rólegur, heldur fer ég að titra og einhver
ólýsanleg martröð nær tökum á mér, fyrst á fótunum, eins og ég
hafi náladofa, nær síðan tökum á höndum mínum, læðist hægt upp-
eftir mér, nær tökum á hálsioum, svo að ég ætla að kafna, leggur
undir sig allan líkama minn, neðan frá og uppúr, grípur um tungu
mína og fær útrás í þessum orðum, sem ég hvísla, þar sem ég sit
við borðið og titra: Ég er einn.
Furðulegt að sitja í herbergi sínu og hvísla: Ég er einn.
Ég sit gegnt dyrunum í herbergi mínu, en rétt við dyrnar hangir
mynd af stúlku, en það sem gerist er ekki í því fólgið, að myndin