Tímarit Máls og menningar - 01.05.1945, Blaðsíða 101
UM UPPHAF ÍSLANDS OG ALDUR
91
eitla eða hleifa. Slík innskot eru venjulega gerólík blágrýtinu og
stinga í stúf við það langar leiðir tilsýndar bæði að lit og gerð.
Einkum ber víða mikið á ljósrauðum eða bleikleitum innskotum
úr bergtegund, sem nefnist líparít, og öðru skyldu bergi. Mest er af
þessum ljósu storkum á Austfjörðum, en þær eru til í öllum lands-
hlutum. Austur í Lóni eru stórir hleifar úr eins konar graníti. En
það er ljósleit storka, svipuð líparíti til að sjá, en smáyrjótt, þegar
að er komið. Þar um slóðir eru einnig stór innskot úr annarri yrj-
óttri bergtegund, sem nefnist gabbró. Það er dökkt, og tilsýndar
líkist það blágrýti að lit, en gerðin er önnur. Víðar liafa þessar
bergtegundir eða afbrigði af þeim fundizt í blágrýtishéruðum lands-
ins. Þær bera það með sér, að þær hafa storknað djúpt í jörðu,
og koma því aðeins í ljós á yfirborði jarðar, að hið þykka berglag,
sem þær storknuðu undir, sé máð burt. En til þess hlýtur að hafa
þurft óratíma. Þessar bergtegundir gefa því eindregið í skyn, að
jarðmyndun sú, er þær ruddust inn í, sé firna gömul að venjulegu
tímatali.
Jarðmyndun „hinna reglulegu fjalla“, sem hér hefur nokkuð verið
sagt frá, er nú kölluð blágrýtismyndunin. Lögum hennar hallar yfir-
leitt dálítið inn í landið, og þar hverfur hún inn undir yngri mynd-
anir, sem eru miklu óskipulegri og Eggert kallaði „óreglulegu fjöll-
in“.Þessi afstaða blágrýtismyndunarinnar til annarra berglaga sann-
ar ljóslega, að hún er elzta rnyndun landsins — undirstaðan, sem
allt hitt hefur hlaðizt ofan á.
Eftir er að ræða nánar um aldur blágrýtismyndunarinnar, og
verður þá eigi komizt hjá að minnast á sambærilegar jarðmyndanir
í öðrum löndum.
Jarðfræðingar skipta sögu jarðskorpunnar í kapítula eða þætti.
Þeir eru fjölmargir, og tekur hver yfir visst tímabil. Hver jarð-
myndun er kennd við það tímabil, sem hún myndaðist á. Af berg-
tegundinni einni saman eða gerð hennar má sjaldnast marka, á
hvaða tímabili hún hefur myndazt. Blágrýti er t. d. algengt í elztu
jarðmyndunum, sem menn þekkja, en blágrýtishraun renna einnig
á vorum dögum. Langbeztu leiðbeiningarnar um aldur jarðlaga hafa
löngum verið — og eru enn — steingervingarnir, sem þau hafa að
geyma. En steingervingar eru leifar gróðurs og dýra, sem lifðu