Tímarit Máls og menningar - 01.05.1945, Blaðsíða 105
UM UPPHAF ÍSLANDS OG ALDUR
95
ekki ólíklegt, að allir þessir blágrýtisskikar haíi náð saman um
skeiö og myndað landbrú um þvert Atlantshaf milli Bretlandseyja
og Grænlands. Island og Færeyjar eru þá leifar af henni, hitt hefur
sigið í sæ eða brotnað niður í sjávargangi.
Ég gat bess áður, að frá upphafi tertíertímans væru liðnar um
60 millj. ára. En ég hef ekkert á það minnzt, hvernig sú tímalengd
hafi verið reiknuð. Afstaða jarðlaga og steingervingar sýna aðeins,
í hvaða röð og á hvaða tímabili þau hafa myndazt. En um lengd
tímabilanna og raunverulegan aldur jarðlaganna, t. d. í árum, er
heldur lítið á þessu að græða. Aðferöin til að finna raunverulegan
aldur berglaga má heita ný. Ekki er þess neinn kostur að segja frá
þeirri aðferð hér. Þess skal aöeins getið, að hún styðst við ummynd-
un vissra efna — sem kallast radíóaktíf ejni — í bergtegundunum.
Efni þessi breytast jafnt og þétt úr einu í annað, og af hlutfallinu
milli óummyndaðs efnis Qg ummyndaðs má reikna, hve langt er, síð-
an bergtegundin storknaði, sem þau finnast í. Aðferð þessi hefur
reynzt furðu áreiðanleg. Hún hefur staðfest fullkomlega röð jarð-
sögutímabilanna, sem studdist áður eingöngu við þróunarsögu dýra-
ríkisins, er steingervingafræðingar höfðu rakið. En eftir að farið
var að beita nýju aðferðinni (á allra síöustu áratugum), fékkst
miklu betri vitneskja um lengd tímabilanna hvers um sig. Reyndist
hún talsvert önnur en menn höfðu áður gert sér í hugarlund, og
yfirleitt reýndust tímabilin og þar með öll jarðsagan lengri en fyrr
var haldið. Aldur íslands, 60 milljónir ára, er stuttur tími, þegar
hann er borinn saman við aldur sjálfrar jarðskorpunnar. Elzta berg,
sem rannsakað hefur veriÖ með nýju aðferðinni, hefur reynzt vera
milli 17 og 18 hundruð milljóna ára gamalt, og þetta berg ber það
með sér, að þykk jarðskorpa var til, áður en það myndaðist — að
líkindum ekki ólík þeirri, sem mannkynið byggir nú. Aldur sjálfrar
jarðskorpunnar hefur veriÖ áætlaður um 2000 millj. ára a. m. k.
ísland er mjög ungt land, ef aldur þess er borinn saman við
aldur annarra landa jafnstórra. Ekkert land í Evrópu er eins ungt
nema Færeyjar (og nokkrar eyjar enn smærri), sem eru líkar því
að aldri. Sköpun íslands hefur verið fádæma hröð, og þótt hún
tæki meira en sex daga, er vandfundin meiri og fegurri smíði, sem
gerð var á skemmri tíma.