Tímarit Máls og menningar - 01.05.1945, Blaðsíða 125
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
115
Undir óttunnar himni
Guðmundur BöSvarsson: UNDIR ÓTTUNNAR
HIMNI. Ljóð. Útg.: Heimskringla,
Reykjavík 1944. 74 bls.
GuSmundur Böðvarsson skáld hefur sent frá sér fjórðu ljóðabók sína, og ber
hún heiti það, sem að ofan greinir. 1 bók þessari eru 21 kvæði, og eru mörg
þeirra alllöng.
Nokkur þessara kvæða minnist ég að hafa séð á prenti áður eða heyrt. Meðal
þeirra er kvæði það, sem skáldið las upp á listamannaþinginu 1943, og nefnir
Jólakort jrá 1910. Langflest kvæðanna hafa þó ekki áður komið fyrir almenn-
ings sjónir.
Guðmundur Böðvarsson hefur verið mikill afkastamaður í ijóðagerðinni og
á vonandi margt óort, því að hann mun ennþá á léttasta skeiði. Hann tók sér
sæti meðal góðskáldanna þegar er hann sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína, og
var það mjög að vonum, því að ljóð hans hafa ávallt verið vönduð og form-
fögur. Ilann virðist hafa mjög næmt brageyra og málkennd, svo að varla má
finna nokkurn blett né hrukku á kvæðum hans að því leyti, og hann á þannig
mjög auðvelt með frumatriði íslenzks skáldskapar, sem ýmsir skáldbræður
hans hafa fyrr og síðar strítt við. Honum virðist næstum of auðvelt að yrkja,
því að stirðkvæðu skáldin hafa oft lært sitthvað af erfiðleikum sínum.
Kvæðaform Guðmundar er mjög ljóðrænt, enda þótt efni margra kvæðanna
í þessari bók séu vandamál og ógifta samtímans, sem í fljótu bragði mun virð-
ast, að ekki eigi vel við fíngert og viðkvæmt ljóðform.
Sums staðar má finna ættarmót við annan eldri kveðskap, einkum í bygg-
ingu þessara kvæða hans, en ég ætla, að sá skyldleiki sé þó varla til lýta, enda
eru sum yrkisefnanna tekin skemmtilegum og persónulegum tökum.
Þá skal minnzt á efni þau, sem orðið hafa Guðmundi Böðvarssyni hug-
stæðust, orðið honum að ljóði. Efni þau, sem hann velur sér að yrkja um að
þessu sinni, skipta alla menn máli, þó að skáldið leggi að vísu á þau sitt sér-
staka mat eða skilning. Þau eru ort fyrir alla, hversu sem skáldinu kann að
finnast þau líf af sínu lífi.
Að baki margra þessara kvæða má greina stríðið, sem geisar, með hryðju-
verkum þess og harmsögum. Áhrif þessa mikla harmleiks ná til skáldsins um
langar leiðir.
Slíkur er næmleiki þess. Það hefur auðsjáanlega verið þjáningabróðir
þeirra, sem voru kúgaðir og píndir við mörg fjöll og strendur, og það hefur
einnig fylgt herjum og barizt á mörgum vígvöllum á sama tíma og bóndinn
sinnti bústörfum sínum í íslenzkri sveit. Ilvergi kemur þetta skýrar fram en
í kvæði, sem nefnist 1943.
Vegna þeirra ógangna, sem mannkynið virðist komið út í, lítur skáldið til
forfeðra þess, hinna vesölu, en grimmu frummanna, og yrkir kvæði eins og
/ liátíSasal og NegraþorpiS, sem kann að virðast all-fjarsótt efni. I þessum