Tímarit Máls og menningar - 01.05.1949, Blaðsíða 128
190
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAK
minni, að óþarít er að rekja hér sögu þeirrar hatrömmu menningarstyrjaldar, sem
á eftir fór. Menn muna, hvernig fella átti hina nýju óvini á eigin bragði, þ. e.
með stofnun áskriftaútgáfu Menningarsjóðs. Menn muna einnig, hvernig þetta
bar þveröfugan árangur; að Mál og menning efldist aldrei meir en í eldi kross-
ferðarinnar, sem átti að tortíma því; hvernig bókaútgáfa „hins andans" varð eins
konar Golíat gegn Davíð, með þeim úrslitum, sem kunn eru.
Mál og menning hafði rumskað við íslenzku menningarlífi. Það hafði komið
af stað stormi, þar sem áður var logn. Bækur þess voru lesnar af öllum, flestum
þótti vænt um þær, sumir hötuðu þær, og hvað er bókum betri vitnisburður?
Félag eins og Mál og menning hlaut að hafa tímarit. Það var útvarpsstöð hins
nýja anda og sjálfsagður vettvangur fyrir menningarpólitískar deilur dagsins. Þar
var þreifað óþyrmilega á kaunum menningarleysisins. Tímaritið setti tugi manna
í uppnám, annað hvort hrifningar eða haturs. Það hristi af mönnum slenið.
Hverjum var sama um eldmóði þrungnar greinar hins óþreytandi Kristins Andrés-
sonar eða hárbeittar örvar hins alltafhæfandi Halldórs Kiljans Laxness, hnitmið-
aða rökfimi og háð Þórbergs Þórðarsonar eða óbifandi festu og þunga Sverris
Kristjánssonar? Engum. Engum var sama um neitt, sem stóð í þessu tímariti. —
Ekki heldur þegar Steinn Steinarr orti í það óskiljanleg kvæði, því að þá var þó
alla tíð eitthvað til að hneykslast á!
I þessu sambandi má kannski segja að persónuleg reynsla eins manns skipti
ekki máli. En ég verð að segja það, að í hvert skipti, sem heyrðist, að nýrrar
bókar væri von frá Máli og menningu, eða nýs heftis af Tímaritinu, var ég ekki í
rónni fyrr en ég hafði fengið þetta upp í hendurnar, og þá var það gleypt. Og
fyrir okkur úti um land varð biðin oft löng. — En þó held ég þetta skipti máli,
J)ví að ég held, að það hafi verið svona með mikinn fjölda ungs fólks. Að baki
þessa menningarfélags — mér finnst bókafélag næstum því of þröngt hugtak —
stóðu menn, sem virkilega höfðu einhvem boðskap að flytja, eitthvað nýtt, sem
ungt fólk þráði og það vantaði. Lognmolla og kæruleysi eru ekki einkenni æsk-
unnar. Og einmitt vegna þess, að Mál og menning réðst gegn þessu tvennu og
boðaði nýja trú á landið og framtíð þjóðarinnar, fann boðskapur þess hljómgrunn
hjá æskulýðnum.
I hörðu einvígi við „hinn andann" bar Mál og menning ómótmælanlega sigur úr
býtum. En það kvað vera tvennt að kunna að sigra og neyta sigursins. Því miður
finnst mér ég hafa ástæðu til að heimfæra þetta einnig upp á Mál og menningu.
Það var kannski eðlilegt, að félagið gæti leyft sér dálitla hvíld — ef ég má svo
að orði kveða — í Jjeirri miklu fagnaðarbylgju, sem fór yfir þjóðina eftir lýð-
veldisstofnunina. En síðan hefur mér fundizt vanta í það þann eldmóð, sem áður
var höfuðeinkenni þess, einkum í Tímaritið.
Nú hefur hin mikla bylgja lýðveldisstofnunarinnar fjarað út. Menn eru aftur
orðnir svartsýnir, enda steðja margar hættur að. Nýfengnu sjálfstæði þjóðarinnar
er ógnað, mest af því, að J>að verði svikið innanfrá. Að vísu eru nú margir og
sterkir kraftar, sem vinna gegn þessari liættu, en þó er aldrei of mikið að gert.
Og í þessari baráttu verður Mál og menning líka að hefja sína raust gegnum út-