Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Blaðsíða 61
ÆSKAN í DAG
51
þróunarlögmál mannfélagsins, þróun andstæðna eins og í náttúrunni og
í lífi kynslóða, og greina þjóðfélögin í tvær sveitir er hlíta lögmálum
elli og æsku, hrörnunar og vaxtar, í skipulag gamals auðvalds og
sósíalismans sem er æska heimsins á þessari öld. Hér var komið tíma-
bil Kommúnistaflokks íslands, Félags byltingarsinnaðra rithöfunda og
Rauðra penna. Og með stofnun Félags róttækra stúdenta gerðist sá
sögulegi viðburður, að hópur íslenzkra stúdenta lagði æsku sína við
æsku heimsins, stillti hugsun sína og líf í samhljóm við hina gróandi
þjóðfélagsstefnu, í samhljóm við hjartslátt tímanna.
Við, mín kynslóð, fundum vorið í lofti. En var sú tilfinning ekki
blekking ein? Eða hvar er vor að sjá á íslandi í dag? Er ekki allt grátt
fyrir múrum. Víst lifðum við að sjá drauma rætast, þjóðardrauminn
um frjálst ísland, um endurreisn lýðveldis á íslandi, lifðum að skynja
heillar þjóðar fögnuð. Síðan er ykkur kunnugt hvernig fór. Þessi sigur
var sleginn úr hendi okkar, og við stöndum aftur í gömlum sporum, hið
bjarta hús er við reistum, frelsið, var brennt ofan af okkur, og á þjóð-
veginum glymur traðk erlendra hæla. Bjartari var sú framtíð sem við
ætluðum frjálsu íslandi en sú er nú blasir við augum. Aðrar hugmynd-
ir gerðum við okkur um íslenzka þjóð en þær sem nú standa letraðar
á spjöldum.
Fyrir fáum dögum birtist í útvarpi og dagblöðum fregn eftir News
Chronicle um góðar horfur á samkomulagi við brezku ríkisstjórnina
um landhelgismálið, og fylgdi með sögu, að Bandaríkin myndu veita
stuðning, því að „eyjan hefði þýðingu sem flug- og flotastöð“. Hér höf-
um við svart á hvítu, nákvæmlega skilgreint, gildi íslands í dag, ekki á
mælikvarða neinna óvina, heldur vinaþjóða okkar þeirra sem við hjúfr-
um okkur upp að brjóstinu á og sýnum ástaratlot í smáu og stóru, og
teljum lífsakkeri okkar, skjól og hlíf. „Eyjan hefur þýðingu sem hern-
aðarstöð.“ Klappað og klárt. Hér er í hreinni mynd sjónarmið auð-
valdsins á landi okkar. Við erum þýðingarlausir nema sem flug- og
flotastöð. Þjóðin skiptir ekki máli, menning hennar, sjálfstæði, saga,
bókmenntir, líf hennar, æska, framtíð, ekki talið þess virði að nefnt sé.
Tilvera íslands í dag er að vera, eins og Kiljan komst að orði, hala-
kleppur á bandarískri atómstöð er sogar nú til sín starfskrafta og líf
þjóðarinnar. Þessi staðreynd er sá grái múr sem við stöndum upp við,
íslendingar, og byrgir mörgum alla framtíðarsýn.