Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Blaðsíða 84
74
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Með hollum verkefnum á ég ekki fyrst og fremst við hagnýta laun-
aða vinnu. Til verkefna teljast líka leikir, tómstundastörf, nám, starf-
semi í félögum o. s. frv. Ekki er nóg að sjá fyrir einhverjum verkefnum,
þau verða einnig að vera sniðin eftir þroska, hæfileikum og hneigðum
hvers einstaklings. Tilgangslaust er að benda unglingum á verkefni,
sem eru ofvaxin getu þeirra, og ekki er heldur heppilegt, að benda
þeim á verkefni, sem eru svo auðveld, að þau hæfa betur unglingum
með miklu minni þroska. Foreldrar, kennarar, verkstjórar og aðrir,
sem taka þátt í uppeldi unglinga, þurfa að gera sér ljóst mikilvægi þessa,
oft munu þessir aðilar þurfa að leita aðstoðar sérfróðra manna til
að leysa þetta vandamál. Aðstoð skólasálfræðings þarf oft til að gefa ráð
um námsfyrirætlanir og námsaðferðir unglinga, og ráð vinnusálfræð-
ings þarf oft til að finna ævistarf, sem hentar hverjum einstaklingi.
Ég efast ekki um, að það mundi draga úr fjölda afbrota, sem börn og
unglingar fremja, ef ávallt væri hægt að sjá þeim fyrir hæfilegum
hollum verkefnum.