Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Blaðsíða 16
6
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
aflestrar, og höfundurinn hlaut fyrir hana bókmenntaverðlaun Stalíns 1947. Þessi
saga hefur einnig verið þýdd á ýms erlend mál, m. a. frönsku og ensku, og hefur
orðið vinsæl og hlotið góða dóma.
Geir Kristjánsson, ritstjóri, hefur þýtt söguna úr frummálinu.
Tala3 við dýrin, eftir Konrad Z. Lorenz
Konrad Z. Lorenz, sem lengst af hefur starfað í Altenberg í Austurríki, er einn
kunnasti dýrafræðingur, sem nú er uppi. Hefur hann einkum rannsakað háttemi
og sálarlíf dýra, safnað um það efni miklum fjölda staðreynda, komið fram með
nýjar skýringar og kenningar og smíðað sum þau hugtök, sem nú er einna mest
beitt í dýrasálarfræði.
Þetta rit kom fyrst út á þýzku 1950. Síðan hefur það verið þýtt á mörg mál, m. a.
á ensku, og hefur bókin hvarvetna verið ótrúlega mikið lesin og hlotið verðugt lof
ágætustu sérfræðinga. Efni bókarinnar er fjölþætt. Höfundur segir þar frá athug-
unum sínum á dýrum, sem hann hefur haft undir handarjaðri sínum. Vér hittum
þar gamla kunningja eins og hundinn. Þótt einhver þykist e. t. v. þekkja þessa
skepnu svo vel, að hann viti allt, sem vert er að vita um hana, mun hann við lestur
bókarinnar komast að raun um, að svo er ekki. Svo margt merkilegt og nýstárlegt
segir Lorenz oss um þá. Allt fær líf og lit, þótt höfundur fjalli um smávægilegustu
og hversdagslegustu hluti: Jafnvel nokkrir smáfiskar í keri verða heill heimur
furðuverks, sem hann þreytist aldrei á að athuga. Mikill hluti bókarinnar fjallar
um fugla, félagslegt háttemi þeirra og sálarlíf. Rekumst vér einnig þama á gamla
kunningja eins og hrafninn og heiðagæsina.
Frásögn höfundar er lipur og létt, stundum krydduð kímni, en undirtónninn er
samt alvarlegur og heimspekilegur. Hinar stórmerku athuganir hans á dýrum varpa
nýju ljósi yfir marga þætti manneðlisins, og þegar vér höfum lesið bókina, munum
vér komast að raun um, að vér skiljum ekki einungis dýrin betur, heldur og stöðu
vora og hlutverk í hinum lifandi heimi — og oss sjálf.
Símon Jóh. Ágústsson, prófessor, hefur þýtt bókina og Finnur Guðmundsson,
náttúrufræðingur, ritar formála fyrir henni. Bókin er skreytt fjölda teikninga eftir
höfundinn.
Eins og ljóst má vera af þessu yfirliti er hér um að ræða fjölbreytt úrval bóka og
margar nýstárlegar. Stjórn Máls og menningar treystir því að undirtektir verði svo
góðar, að þessi flokkur þurfi ekki að verða sá síðasti sem félagið gefur út. Sérstak-
lega skorum við á umboðsmenn Máls og menningar og alla velunnara félagsins að
vekja athygli á bókunum og því menningarstarfi sem félagið vinnur með þessari út-
gáfu.