Tímarit Máls og menningar - 01.05.1953, Blaðsíða 83
-AFBROT UNGLINGA — ORSAKIR OG MEÐFERÐ
73
Athuganir hafa enn fremur sýnt, að gott fósturheimili er ekki jafnt
við hæfi hvaða barns sem er. Þótt ákveðið barn, sem við getum kallað
A, hafi engin not af að vera á heimili því, sem það er sett á, getur ann-
að barn, sem við getum kallað B, haft gott af dvöl á þessu sama heim-
ili. A getur þó farnazt vel á einhverju öðru heimili, sem er betur við
hæfi þess. Heimilið og barnið þurfa með öðrum orðum að hæfa hvort
öðru. Með nákvæmri rannsókn, sem gerð er bæði á barninu og heimil-
inu fyrirfram, er hægt að komast langt í því að velja viðeigandi heimili
fyrir hvert barn.
Nú hefur verið drepið á nokkuð af því, sem hægt er að gera til að
hjálpa afbrotaunglingum. Allsstaðar þar, sem slíkar ráðstafanir hafa
verið gerðar, hafa þær borið jákvæðan árangur, stuðlað að því að
minnka hóp afbrotaunglinga, og oft hindrað, að afbrotaunglingurinn
yrði síðar að glæpamanni, en það mun vera sannreynt, að mjög stór
hluti fullorðinna afbrotamanna hafa áður verið afbrotaunglingar.
Aðferðir þær, sem hér hefur verið lýst, duga oft, en við verðum þó
að viðurkenna, að vissum hluta unglinga er ekki hægt að hjálpa með
neinum af þeim aðferðum, sem enn eru þekktar eða tiltök er að nota.
Sá hópur er þó mjög fámennur, og það er mikilvægt að geta snemma
greint þá, sem vonlausir eru, frá hinum, sem hægt er að hjálpa með
uppeldisfræðilegum aðferðum, svo að hægt sé að stuðla að því að gera
þá fyrrnefndu þjóðfélaginu óskaðlega á einhvern annan hátt.
V
Nú mun ef til vill einhver spyrja, hvað sé hægt að gera til að hindra
það, að nokkur börn verði afbrotabörn.
Margt af því, sem hægt væri að gera, má ráða af kaflanum um or-
sakir afbrota. Séu þessar orsakir fjarlægðar að einhverju leyti, mun
afbrotabörnum einnig fækka. í þessari grein eru engin tök á því að
ræða aðferðir þær, sem hægt væri að beita, til að nema burt helztu or-
sakir afbrota, því að til þess að það mætti koma að nokkru gagni yrði
að ræða fjöldamörg uppeldisfræðileg og félagsleg vandamál ýtarlega.
Að síðustu vildi ég þó henda uppalendum á eitt mikilvægt ráð, sem
allir geta hagnýtt en oft er þó vanrækt. Ráðið er þetta: Sjáið börnum og
unglingum alltaf fyrir nœgum hollum verkefnum við þeirra hcefi.