Tímarit Máls og menningar - 01.09.1985, Page 7
Óvantir bandamenn
dæmis þar sem heilu setningunum úr frumtextanum er hreinlega sleppt. Slíkt
skrifast náttúrlega ekki eingöngu á reikning þýðanda, heldur líka forlagsins,
og mætti kannski tína fleiri til. Auk þess mætti ímynda sér, að væri til eitthvert
* apparat hér á landi sem hefði forgöngu um eða styrkti slíkar þýðingar, hefði
það kannski getað haft hönd í bagga. Hafa Alþingi eða Bók-
menntafræðistofnun HI nokkurntíma hugleitt það?
Ekki er nema sjálfsagt að benda bæði þýðendum og útgefendum sem hyggj-
ast fást við útbreiðslu íslenskra bókmennta á, að ætli þeir að spara sér eitthvað
með hroðvirkni og fljótaskrift mun eftir því verða tekið, sé þeim það ekki
' ljóst. Hinu er ekki að neita, að margt af því sem Helga grefur upp í lúsaleit
sinni gegnum textann er hreinn og klár sparðatíningur. Allir sem reynt hafa
við þýðingar vita að aldrei er hægt að ganga þannig frá að hvergi þurfi að víkja
svo til merkingu einstakra orða að það muni ekki í fljótu bragði sýnast rangt,
amk. ef það er slitið úr samhengi. Væri ég Norðmaður að þýða úr íslensku,
vitandi af heilum bókmenntamagister sem bíður í viðbragðsstöðu eftir að geta
* grafið upp slíkar villur, þýðandanum til háðungar, myndi sú hugsun eflaust
hvarfla að mér að velja eitthvert annað verkefni. Því með aðferðum Helgu má
ætíð finna einstök orð og setningar sem skift hafa um merkingu og blæbrigði.
Það á líka við um þær þýðingar sem við höfum hingaðtil talið vel frambæri-
legar, t.d. frá hendi Jóns Þorlákssonar, Sveinbjarnar Egilssonar eða Jóns frá
Kaldaðarnesi. Nú þegar eru til þýðingartölvur sem þýða „rétt“ í öllum
* tilvikum. I því eru þær frábrugðnar listfengum þýðanda af holdi og blóði, og í
þeim mun liggur líka ástæða þess að tölvurnar, hversu miklum orðabókarfróð-
leik þær verða fóðraðar á, munu aldrei geta þýtt margslunginn litteratúr. Má
ég benda á að með einhverjum aðferðum virtist til dæmis hafa verið sýnt
frammá það í tímaritsgrein nýverið að á árunum þegar Halldór Laxness var að
þýða Hemingway hafi hann verið næsta ólæs á enska tungu, og getur hver
> dregið sínar ályktanir af því.
Talandi um Laxness: Hafa alþingismenn sem vilja að íslenskar bækur séu
bara til á íslensku gert sér það ljóst að þó ekki væri nema með því að skrifa
bækur sínar á íslensku hefur hann kannski unnið menningu okkar meira gagn
en nokkur annar á þessari öld? Það er staðreynd, þótt hún kunni stundum að
hljóma fáránlega, að þeir sem fást við að búa til skáldverk eru í rauninni að tala
\ við allt mannkynið. Þetta má jafnvel nota til að skilgreina alvarlegan litteratúr;
í þessu liggur munur á honum og einhverri tækifærisrevíu sem sett er upp í
kauptúni útá landi og hefur enga merkingu fyrir aðra en þá sem þekkja útí
hörgul sérkennilega hætti apótekarans, sóknarprestsins og kaupfélagsstjórans.
Þannig hafa þeir óneitanlega nokkuð forskot sem skrifa á máli einsog ensku
eða spænsku sem hundruð milljóna manna geta lesið, á þá sem skrifa pólsku
„ eða sænsku. Og að skrifa bókmenntir á þetta útkjálkamál íslenskuna (hversu
gömul og eðalborin sem hún annars kann að vera) sem eitthvert brotabrot
prómills af mannkyninu skilur, kann að virðast til lítils. Enda var svo komið
269
»