Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Page 24
Tímarit Máls og menningar
mann. Hann er harðsvíraður skynsemistrúarmaður. Við séra Jón, sem
reynir að segia honum sögu af fífli og hunangsflugu, heldur hann því fram
að lýrik sé „viðbjóðslegasta rugl sem til er á jörðinni að guðfræði ekki
undanskilinni“ (189). Sjálfur hefur hann búið til einhvers konar vísindalegt
alheimskerfi, með mörg nýstárleg fræðiorð, til að útskýra og bæta lífið. Þótt
bækur hans séu „enn ekki lesnar á jörðu“, hefur dr. Sýngmann óbifandi
traust á vísindum sínum: „Nú þegar samstillíngin við æðra mannkyn
stendur fyrir dyrum, þá loks er hafinn þáttur sem hægt er að taka mark á í
sögu jarðarinnar. Epagógík ber fram rök til að sanna skaparanum að lífið sé
með öllu marklaust trix nema það sé eilíft" (182/83). Kaldhæðni höfund-
arins lýsir sér í því að þegar „vísindi“ dr. Sýngmanns eiga að sannast og ná
hámarki sínu í vandlega undirbúinni endurlífgunartilraun, með aðstoð
þriggja „lífsmagnara“ eða „bioinductors“ innfluttra frá Kaliforníu, þá lendir
allt saman í eintómum skrípalátum.
Það er von að Umba, hinum unga guðfræðinema, verði svolítið órótt í
þessu merkilega umhverfi undir Jökli. Hann hefur verið gerður út af biskupi
til að gefa skýrslu um kristnihald séra Jóns, en um það ganga ýmsar skrýtnar
sögur. Biskup hefur lagt ríkt á við þennan óreynda umboðsmann sinn að
segja alveg hlutlaust frá og gera engar athugasemdir frá eigin brjósti: „Ég bið
um staðreyndir. Afgángurinn er mitt mál.“ (18) Umbi rækir verkefni sitt
samviskusamlega samkvæmt þessum fyrirmælum, gerir til dæmis nákvæma
skrá yfir útlit og eignir hinnar niðurníddu sóknarkirkju, tekur upp mörg
samtöl á segulbönd sín o. s. frv. Hann er sem sagt „hlutlaus skýrslugerðar-
maður um kristnihald undir Jökli" (139).
En smám saman fer Umbi að ruglast í ríminu, og óttast að hann muni
færa yfirboðurum sínum syðra „draumabók eina í skýrslustað úr sendiferð
þessari undir Jökul. Mundi þá vandast málið ef þar ætti að auka við draum-
ráðníngabók“ (288). Þeirri breytingu veldur persónuleiki séra Jóns, sem
hefur sterk og næstum því sefjandi áhrif á hinn unga mann, en að lokum
framar öllu sú dularfulla kona Ua eða Guðrún Sæmundsdóttir frá Neðra-
traðarkoti. Henni skýtur skyndilega upp frá útlöndum eftir jarðarför dr.
Sýngmanns, en hann varð bráðkvaddur í sumarhúsi sínu undir Jökli.
Umba, og lesandanum, til mikillar undrunar segist Ua vera eiginkona séra
Jóns. En rétt upp úr brúðkaupi þeirra fyrir þrjátíu og fimm árum fór hún
með dr. Sýngmann út í heim. Þessi vellauðugi maður ættleiddi hana sem
dóttur sína og sendi hana á nunnuskóla í París. Hún lýsir fyrir Umba því
ótrúlega lífi sem hún hefur lifað síðan: staðið fyrir hóruhúsi í Buenos Aires í
nokkur ár, og fleira. Og nú er hún loks komin aftur í heimahaga sína undir
Jökli, einkaerfingi að gífurlegum auðæfum dr. Sýngmanns, og að eigin sögn
ennþá lögmæt eiginkona séra Jóns.
150