Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Blaðsíða 54
Tímarit Máls og menningar
Og sexhundruð krónum svo leikandi list
mun landsjóður tæplega neita.
Eg bauð honum allt, sem mín móðir gat misst,
en meistarinn kaus ekki að breyta.
og síðar:
Eins fannst mér á Breiðfjörð hann bresta nú þor,
og biluð í strengjunum hljóðin,
þó sagði eg, komdu, hver vísan er vor,
nú viljum við borga þér óðinn.
Hann léttir oss heiman og heima vor spor,
eg heyri hvert barn kunna ljóðin,
og ef að við fellum þig aftur úr hor
í annað sinn grætur þig þjóðin.
Löngum hefur mér fundist Gunnarshólmi vera með fegurstu kvæðum
sem eg þekki. Eg lærði það snemma, þó eitthvað seinna en Island, farsælda
frón, en þau tvö kvæði fundust mér einhvern veginn alltaf standa saman og
vera ofurlítið út af fyrir sig. Þau höfðu bæði að mér fannst, sérkennilegt,
næstum dulúðugt form og bæði höfðu þau sjálfa þjóðarsöguna í baksýn.
Oft hefur mér miklast að hægt skuli vera að yrkja jafn fullkomið kvæði og
Gunnarshólmi er, og hversu auðug, gjöful og sveigjanleg íslensk tunga er,
þeim sem hafa hana fullkomlega á sínu valdi. Þessar háttbundnu og hljóm-
miklu ljóðlínur, fast skorðaðar stuðlum og rími, en líða þó fram létt og
eðlilega eins og lindin í fjallshlíðinni. Þannig seiðir skáldið fram sögusviðið,
„sælan sveitarblóma" Suðurlands og „hina miklu mynd“ fjallanna, sem
umkringja það. Og sagan sjálf, örlagastund hetjunnar, sem lagði líf sitt að
veði heldur en að láta neyða sig til að yfirgefa þetta fagra svið, sveit sína og
fósturjörð. En staðurinn þar sem hann tók ákvörðun sína stóð enn skrýddur
„algrænu skrauti“, þó að landið í kring væri löngu komið í auðn.
Þar sem að áður akrar huldu völl,
ólgandi Þverá veltur yfir sanda;
sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;
en lágum hlífir hulinn verndarkraftur
hólmanum, þar sem Gunnar snéri aftur.
180