Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Síða 64
Tímarit Máls og menningar
aðarfullur ungur maður verður að líta á annað fólk, lög og siðferði eingöngu
sem tæki; hann verður að gæta að forminu, því það sem gert er skiptir engu,
heldur eingöngu hvernig það lítur út í augum annarra; og hann má einskis
svífast, því árangur er æðri öllum lögum. Vautrin býður honum far til
höfuðborgarinnar: „Við munum finna handa þér hertogadæmi í París — og
takist það ekki, eigum við alltaf vísa hertogaynju.“ (bls. 624)
Andríki til sölu
Honoré de Balzac (þetta „de“ lagði hann sér til, líktog Lucien) var enginn
róttæklingur í pólitískum efnum, þvert á móti mun hann hafa verið einveld-
issinni síðari hluta ævi sinnar. En fáir hafa í skáldverkum deilt harðar á
kapítalisma 19. aldar, svo af hrifust bæði Marx og Engels. Sá síðarnefndi
orðaði þessa þverstæðu á þá leið (í bréfi til frú Harkness, 1888) að Balzac
hefði í skáldsögunum sigrast á pólitískum fordómum sínum, realisminn hafi
gert honum kleift að sýna raunverulegan gang sögunnar. Og Georg Lukács
komst svo að orði í grein að Brostnar vonir væru tragíkómískt söguljóð um
tímabil, þegar mannsandinn er lagaður að lögmáli auðmagnsins.2
Hrifning Marx og Engels er auðskilin og staðhæfing Lukácsar er rétt svo
langt sem hún nær. I formála að öðrum hluta verksins fordæmdi Balzac
afleiðingar þess að bókmenntirnar væru nú einsog hver önnur verslunarvara
(sbr. Brostnar vonir, bls. 960), og í þeim hluta verksins er breytingunni
ítarlega lýst. Nefna má senu þar sem Lucien situr saklaus sveitapiltur og les
sínar heittelskuðu sonnettur fyrir nýjan vin, blaðamanninn Etienne. Sá
hefur ekki hlýtt lengi á lesturinn þegar hann segir við skáldið: „Kæri vin,
vinna er ekki lykillinn að velgengni á sviði bókmennta, heldur skiptir mestu
að hirða arðinn af vinnu annarra“ (bls. 262). Og Lucien lærist að ljóð séu
ekki mjög eftirspurð vara á bókamarkaði Parísar, honum sé nær að snúa sér
að blaðamennsku, þar geti hann komið andríki sínu í betra verð.
Balzac sýnir þetta á áþreifanlegan hátt. Lucien tekst að rétta úr kútnum
eftir fyrstu skakkaföllin með því að skrifa leikdóm í anda tískunnar og eftir
pöntun, dóm sem á ekkert skylt við hans eigin skoðanir. Þar með hefur
honum tekist að selja hæfileika sína sem vöru, tryggja sér að nýju aðgang að
blaðaheiminum, og honum finnst hann aftur vera eitthvað, hafa öðlast
persónuleika enda þótt hann hafi svikið sína eigin sannfæringu (bls. 358).
Sölugildi hans eykst, eftir því sem hann sjálfur skreppur saman og honum
skilst að hugmyndir og skoðanir séu aðeins tæki til að tryggja stöðu sína á
markaðnum. Hann er það sem selst. Héðan verður ekki aftur snúið, og því á
Lucien ekki að neinu að hverfa nema drykkjuvísum þegar vara hans fellur
skyndilega í verði. Þá er hann í margfaldri merkingu búinn að vera.
190