Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Blaðsíða 29
Listin að Ijúka sögu
Þannig endar þessi síldarsaga. Við kveðjum Islandsbersa, mikinn athafna-
mann í miðjum straumi samtíðarinnar, fyrst og fremst sem föður Bergrúnar,
í leit að þeim tóni sem gæti opinberað innsta eðli liðinnar dóttur hans og
sambands þeirra tveggja — þeim tóni sem verður ef til vill aldrei fundinn.
Niðurlagsorð
Þessar minnisgreinar gera engar kröfur til þess að segja neitt nýtt eða óvænt
um skáldsögur þær sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Margt sem
skiptir máli, stundum kannski meira að segja mestu máli, hefur einnig verið
látið liggja milli hluta. Ætlun mín hefur aðeins verið að athuga svolítið
nánar aðferð skáldsins við að ljúka sögu. Er hægt að draga einhverja al-
menna ályktun af þessu yfirliti?
Fáir íslenskir rithöfundar á þessari öld hafa tekið eins virkan þátt í
umræðum um almenn kjör þjóðarinnar og Halldór Laxness. Skáldsögur
hans eru yfirleitt þjóðfélagslegs eðlis, og ósjaldan róttæk og vægðarlaus
ádeila. Að því leyti er heildin, þjóðfélagið, í brennidepli. En ég þykist hafa
fundið, og vona að mér hafi tekist að sýna fram á, að einmitt undir lok
skáldsagna hans beinist ljósið meira en ella að einstaklingunum og persónu-
legum örlögum þeirra, oft í afstöðu hvers til annars: Steini Elliða og Diljá;
Arnaldi og Sölku Völku; Bjarti og Ástu Sóllilju; Olafi Kárasyni og Beru;
Arnas Arnæusi og Snæfríði; LFglu og organistanum; Þormóði Kolbrúnar-
skáldi og Ólafi Haraldssyni; Álfgrími og afa og ömmu; Steinari í Steinahlíð-
um og börnum hans; Umba og Úu; íslandsbersa og Bergrúnu. En um leið
er að lokum óbeint brugðið upp þeirri eilífu spurningu: Hver er tilgangur
lífsins, tilgangur hverrar manneskju? Hvar er ég? Hvar er tónninn sem einn
skiptir máli? Og hlutlaus náttúran heldur sínum leyndardómi. Tíberfljótið
veltir mannkynssögunni áfram í mórauðum öldum sínum. Jökullinn andar á
menn og skepnur orðinu aldrei sem ef til vill merkir einlægt. Fuglinn situr
enn á garðstaurnum að hlusta á bergmálið af því sem hann kvakaði í vor —
en svo endar Sjöstafakverið (1964), meðan Knútur gamli er að deyja, einn,
og áin heldur áfram að renna niður með túninu.
Athugasemd:
I tilvitnunum er allsstaðar vísað til frumútgáfna, ef annað er ekki tekið fram. Þegar
frumútgáfur eru í fleiri bindum, er þá einstöku sinnum notuð rómversk tala til að
merkja bindi, ef þess þykir þörf, t. d. II, 200.
155