Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Blaðsíða 72
Tímarit Máls og menningar
að hvorki Walter Scott né E. T. A. Hoffmann hefðu getað skapað persónu
sem líktist „því sem félagsleg náttúra Parísar hefur leyft sér að búa til í
þessum manni, ef Samanon er þá yfirleitt maður.“ (bls. 428).
Þar sem hið dýrslega er alltaf svo nærri má vísindaleg athugun ekki standa
ein sér, henni verða að fylgja siðferðilegar vangaveltur sögumanns, hann á
ekki að fara í launkofa með afstöðu sína:
Pess er að gsta að sumar sálir sem eru sannarlega skáldlegar en viljalitlar,
uppteknar af hreinræktaðri skynjun og því að tjá þá skynjun í myndum,
skortir í eðli sínu þá siðgæðisvitund sem verður að fylgja hverri athugun. (bls.
413)
Sögumaður Balzacs hefur þessa siðgæðisvitund í ríkum mæli, og lætur hana
oft í ljós með margs konar athugasemdum við það sem fram fer.
I þriðja lagi tilheyrir það bókmenntaskilningi Balzacs að höfundurinn
hafi til að bera hugarflug, sköpunarmátt sem gerir honum kleift að gefa
athugunum „lifandi form“ einsog hann hefur orðað það á einum stað.14
Manngildishugsjón Balzacs birtist því líka í hugmyndum hans um hæfileika
rithöfundarins. Skáldsögur verða að sameina anda, vilja og form. Þar með
verður sögumaður — hjá Balzac iðulega alvitur og allt sjáandi — síðasta
athvarf manngildis, sem mannkynssagan er að kasta á sinn stóra haug.
I þessu er þverstæðan fólgin; frásögnin heiliast af upplausninni sem
peningarnir valda í því vandlega hólfaða samfélagi sem sögumaður aðhyllist.
Lucien þráir þá frægð og þann frama sem hann getur aðeins öðlast fyrir til-
stilli peninga. Og þessi þrá hans er aflvaki frásagnarinnar og réttlæting.
Þverstæðan sem Engels, og margir í kjölfar hans, telja vera milli sögulegs
raunsæis í skáldsögum Balzacs og íhaldssamrar hugmyndafræði hans er því
innbyggð í raunsæisformið sjálft. Þau gildi sem móta samfélagsmynd Brost-
inna vona og orðuð eru í athugasemdum sögumanns, eru áhrifalaus í
framvindu frásagnarinnar. D’Arthez er vissulega andstæða Luciens, hrein-
skiptinn og viljafastur höfundur andspænis manni sem selur sál sína og
skáldskaparhæfileika fyrir fé og frama. En d’Arthez er að mestu leyti ,úr
sögunni*, frásögnin fylgir Lucien, rétt einsog David á ekki lengur heima í
skáldsögu eftir að hann er orðinn hugdjarfur skordýrasafnari. Og sé saga
Luciens dæmisaga um mann sem gengur of langt í metnaði sínum, fórnar of
miklu, gengur hún heldur ekki upp, því framvindan sýnir að hann var ekki
nógu tillitslaus, og skorti fé og fjármálavit til að ná sínu fram.
Höfundurinn leggur í þessa sögu hugmyndafræði sína og siðgæðismat
annars vegar, hæfileika sína til að heillast og sjá hins vegar. Þetta tvennt
stefnir ekki að sama marki, en myndar í sameiningu raunsæisform verksins.