Tímarit Máls og menningar - 01.05.1987, Síða 40
Danilo Kis
Dýrlegt er að deyja
fyrir föðurlandið
Esterhazy hinn ungi lá á bæn þegar fangaverðirnir gengu inn í klefa
hans við aftureldingu dag einn í apríl, daginn sem hinn keisaralegi
dómstóll hafði úrskurðað að hann skyldi tekinn af lífi. Hann drúpti
höfði, og ljóst sítt hár hans skiptist í hnakkanum og féll sitt hvorum
megin við langan, mjóan háls og beinabera hryggsúlu sem hvarf ofan
í kragalausa línskyrtu. Fangaverðirnir námu staðar og hugsuðu með
sér að stund greifans með guði sínum verðskuldaði, þó ekki væri
nema stundarkorn, frávik frá hinum ósveigjanlegu spænsku siðaregl-
um. Presturinn dokaði einnig við með greipar spenntar í þögulli bæn;
úr lófum hans lak sviti niður á fílabeinsklætt hulstrið utan um
bænabók hans; talnaband með kúlum á stærð við ólífur sveiflaðist
hljóðlaust til og frá. Það eina sem heyrðist var óreglulegt hringl í
lyklum á gríðarstórum hring sem einn varðanna hélt í hendi sér.
„Amen,“ hvíslaði ungi maðurinn og lauk þar með morgunbæn-
inni. Þvínæst bætti hann við hærra: „Faðir, fyrirgefðu mér.“
Á sömu stundu kvað við trumbusláttur, eins og eftir skipun, ömur-
lega tilbreytingarlaus eins og regnið.
Liðsforingi með rytjulegt yfirskegg og rauðþrútið andlit tók sér
stöðu milli tveggja króatískra hermanna og hóf að lesa upp dóminn.
Rödd hans kafnaði að mestu í klefaveggjunum. Dómurinn var óvæg-
inn: henging. Ungi aðalsmaðurinn hafði gripið til vopna og tekið þátt
í einni fjölmargra uppreisna sem víða blossuðu upp í landinu um
þessar mundir. Uppreisnir þessar voru óvæntar, blóðugar, grimmd-
arlegar og örvæntingarfullar, en voru samstundis barðar niður á jafn
óvæntan, grimmdarlegan og örvæntingarfullan hátt. Dómstóllinn
taldi að heiður ættar hans gerði brot hans alvarlegra, því þetta var
ekki einungis brot gegn keisaranum, heldur einnig gegn hans eigin
stétt. Því átti refsingin að verða öðrum víti til varnaðar.
166