Tímarit Máls og menningar - 01.03.1997, Síða 125
RITDÓMAR
á ofbeldisfullan hátt heldur með þeirri
hægð sem einkennir söguna alla. Heimur
sögunnar hringar sig umhverfis þrár
hins sakbitna og rótlausa nútímamanns,
sektin rennur saman við martraðar-
kenndar sýnir sem leita á hann í svefhi og
vöku, hindurvitnin varpa ljósi á mann-
inn líkt og djöflarnir sem hömuðust á
helgum mönnum á tímum frumkristn-
innar. í Odda verður honum svefns vant:
Ég mun öldungis ekki fá sofið í nótt. Ég
heyrði áðan bylmingshögg á þakinu
eins og einhver væri þar og riði húsum.
Ég hætti mér ekki út að glugga en
ímyndaði mér að verur næturinnar
hefðu vaknað af dvala. Höggið á þak-
inu var raunverulegt. Ég ímyndaði mér
að þar væri að verki íslenskur draugur
eins og þeim er lýst: afkáralegur
stráklingur með stór oddhvöss eyru og
bogið nef, tannlausan munn skældan í
glotti, himinblá og slikjukennd augu
og stóra og kræklótta fingur iðandi af
illum áformum. Ég sá fyrir mér verur
næturinnar neðan við hann á túninu:
iðandi kös af skrípum og ófétum,
ókennileg dýr sem rykktust til og
hlykkjuðust um i fánýtum dansi,
bústna og sællega púka kjamsandi á
mykjuflugunum sem flugu kátar upp í
þá, raunamæddar afturgöngur húk-
andi á hlöðuvegg í aldarlangri ein-
semd; ég sá fýrir mér naut sem dró
hálfa húðina á eftir sér og stóð grár
strókur úr nösum þess, ég sá slýgræna
hafmenn, gráa hesta, mannfugla sem
kjöguðu um höggvandi loftið, gamla
og eineygða kerlingu sem sat og rýndi
í spil og sagði í sífellu að hún sæi þar
veg, illmenni, svikráð, dánarbeð, bréf
frá einhverjum og óvæntar fréttir;
(140-41)
Þannig virðist veröldin öll mjög við ald-
ur í þessari bók þótt sögutími hennar sé
tími umróta og framfara, nýrra hug-
mynda sem endurspeglast í sjálfstæðis-
baráttu þjóðarinnar. Söguhetjan flýr hið
iðnvædda samfélag Englands og leitar
hins frumstæða, hreina og saklausa. Þótt
Jón Hólm sé sá sem miðlar dagbókarrit-
ara anda landsins er hann á vissan hátt
glæsilegur fulltrúi þess sem ferðalangur-
inn flýr. Jón stefnir hraðbyri inn í nútím-
ann á meðan dagbókarritari fetar dimma
slóð sem liggur aftur í tímann. Jón er
maður Sögunnar, framfara, frelsis og
áforma; hann glóir af nýrri öld; sá dauði
er einn til í hans augum sem vinnur gegn
framförum og kröfum tímans. Dagbók-
arritari vill hins vegar snúa tímahjólinu í
öfuga átt, segja skilið við viðhorf sem
leggja lífsþægindi og hamingju að jöfnu.
Hann afneitar þeirri hugmynd að þekk-
ingin stefni sjálfkrafa fram á við, lífið er
fyrir honum ein stór keðja þar sem eitt
tengist öðru, þar sem hjartsláttur jarðar-
innar gefur manninum merkingu. í ein-
feldni sinni vill hann að Islendingar séu
trúir sinni norrænu arfleifð, hafni grá-
leitri iðnvæðingu og þeirri upplausn sem
henni fylgir og leiddi einungis til þess að
,,[þ]eir sæu ekki hafið lengur og ekki
himininn yfir sér heldur. Jörðin og jarð-
argróðinn hefði ekki neina merkingu
fýrir þeim, sjálf hringrás tilverunnar væri
rofin og þeim svipt út úr henni“ (66).
Persóna Jóns er íslenski draumurinn
holdi klæddur: hann ljómar af fyrirheit-
um, hann er sveimhugi sem eru allir veg-
ir færir en brýtur engu að síður öll sín
skip jafnóðum og þau láta úr höfn, hann
hefur heila þjóð í höndunum. Ástarsaga
hans er listilega skrifuð og annað verður
ekki sagt um söguna í heild sinni;
biksvört hraunbjörg liggja eins og deyj-
andi risar í briminu, torfbær í Reykjavík
hjúpaður grænni mygluskán er eins og
staður dreginn upp af hafsbotni. Aðal-
persónurnar varpa skæru ljósi hver á
aðra; Cameron kemur úr gönguferð um
Reykjavík fullur af gleði vísindamanns-
ins yfir nýjum uppgötvunum á meðan
dagbókarritari dregst raunamæddur um
götur (sjá 84).
Einn helsti kostur sögunnar er sá að
ekkert misræmi skapast á milli tungu-
máls og söguefnis eða þeirrar vitundar
sem textinn kemur á framfæri. Slíkt er
alls ekki sjálfgefið þegar fjallað er um
TMM 1997:1
115