Tímarit Máls og menningar - 01.12.1998, Qupperneq 69
AÐ TJALDABAKl 1 ÍÐNÓ VETURINN 1934-35
Veiki bletturinn er Dick [Indriði Waage], sem er ekki nógu myndar-
legur og hefur alltaf leikið blöndu af Osvaldi [í Afturgöngum Ibsens]
og Galdra-Lofti. Það er út af fyrir sig nógu slæmt - einn í einu getur
verið nóg, þar sem það á ekki við - og hann er slappur og lingerður,
vantar alla karlmennsku. Mér hefur með miklum erfiðismunum tek-
ist að fá hann til að virka karlmannlegan, þaulæft hverja hreyfingu,
þannig að hann sleppur án þess að spilla miklu. 1 rauninni er bara allt í
lagi með hann, burtséð frá aðalástarsenunni, þar sem hann vantar allt
- en reynir af miklum dugnaði að láta sem hann hafi það.
Þessi háðsyrði Gunnars um leik Indriða geta ekki staðið athugasemdalaus.
Indriði Waage sýndi ungur ótvíræða hæfileika og varð með tíð og tíma einn
af fremstu leikurum þjóðarinnar. Þó að hann væri ekki mikill fyrir mann að
sjá, bjó hann yfir svipmiklum, sérkennilegum persónuleika, sem oftast skein
í gegnum persónusköpunina og hann kunni ugglaust vel að notfæra sér, ef
svo bar undir. Mikill næmleiki var einn höfuðkostur hans, jafnt sem leikara
og leikstjóra; einkum róma ýmsir leikarar, sem kynntust honum í starfi,
hæfni hans sem persónuleikstjóra.
Indriði átti, þegar þetta var, ekki langan feril að baki. Hann hafði aðeins
staðið á sviðinu í um tíu ár og Gunnar hefur naumast séð hann leika fyrr, þó
að hann kunni að hafa séð eitthvað til hans vorið 1927, þegar Gunnar dvald-
ist í Reykjavík og Indriði lék einmitt Osvald í Afturgöngum. Hvernig sem því
kann að hafa verið háttað, hlýtur hann að byggja mestmegnis á frásögnum
annarra, þegar hann segir Indriða alltaf hafa leikið „blöndu af Galdra-Lofti
og Osvald“. Má svo sem vel vera, að fólk hafi þóst þekkja frá þeim einhverja
takta í öðrum hlutverkum hans; ekki væri Indriði einsdæmi um það meðal
leikara. En kjarni málsins er þó augljóslega sá, að Indriði var einfaldlega ekki
réttur leikari í hlutverk af þessu tagi. L.R. átti, þegar þetta var, engan góðan
elskhuga-leikara nema Gest Pálsson sem af einhverjum sökum lék lítið með
því þennan vetur. A.m.k. virðist hann ekki hafa verið tiltækur í Dag Vestan,
ástmanninn í Straumrofi, því að þar var Þorsteini 0. teflt fram, þó að
gagnrýnendur væru hjartanlega sammála um, að hann ætti að halda sig sem
lengst frá slíkum hlutverkum.45
Um aðra leikendur í Nönnu höfðu leikdómarar færri orð. Valur Gíslason
þótti ekki ná góðum tökum á Pargetter bónda og Marta Indriðadóttir fékk
misjafna dóma sem frú hans. Kristjáni Albertssyni fannst Magnea Sigurðs-
son of ólík þeirri persónu sem hún lék: „Henni tókst ekki að sannfæra mann
um kuldann og lymskuna í innræti stúlkunnar, en geig hennar í þriðja þætti
lék hún vel.“ Þess má geta til gamans, að Indriði Einarsson skrifaði stutta
grein um sýninguna og hældi mjög verki Gunnars. Af leikurum sá hann ekki
ástæðu til að nefna aðra en Mörtu dóttur sína, og er ekki ólíklegt að ýmsir
TMM 1998:4
www.mm.is
67