Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2009, Side 169
MARGKUNNUGAR KONUR OG ÓBORIN BÖRN
169
og heilagur andi koma til að vitja þín, og mun þú af honum og
barnshafandi verða, og muntu Guð sjálfan bera níu mánuður í
kviði.38
Eðlilegt var þannig að bera barn í kviði í níu mánuði en ef út af því brá og
barn var ekki borið undir belti í tilsettan tíma var það augljóslega fætt fyrir
tímann. Hér mætti láta sér detta í hug orðið óburður. Var „fyrirburi“ ef til
vill upphafleg merking orðsins óburður? Vissulega gefur orðabókin frá
2005 ekki þá merkingu heldur eingöngu „vanskapningur, ómynd“.39
Óburður er til í frændmáli okkar færeysku og í færeyskri orðabók er m.a.
þessi merking gefin: „miseydnadur burdur“,40 sem einmitt þýðir „mis-
heppnaður burður“. Ennfremur fann ég í Ritmálssafni Orðabókar Há -
skólans dæmi frá 19. öld um að óburður þýddi beinlínis sá sem fæðist fyrir
tímann: „Allskonar burðir sem í eðli sínu voru góðir, komu fyrir tímann og
urðu óburðir“. Hér er orðið vissulega notað í yfirfærðri merkingu en alveg
er ljóst að átt er við eitthvað sem kemur fyrir tímann og er því óburðugt og
veikburða eins og nýfæddir fyrirburar eru gjarnan. Barn sem fæðist fyrir
tímann er líka kallað „otijmabær Kvennmansburdur“.41 Óburð ur væri
sannarlega lýsandi orð yfir agnarsmátt barn sem væri fætt fyrir tímann.
Orðið hefur svo fengið víðari og almennari merkingu eins og algengt er.
Svipað dæmi má nefna úr danskri tungu en þar þýðir orðið mis foster barn
fætt fyrir tímann en jafnframt því merkir það vanskapað barn.42 Annað orð
sem til er í íslensku máli styður þennan skilning en það er orðið ótímaburð-
ur. Þar er átt við barn sem fæðist fyrir tímann. Orðabókskýringin er þann-
ig: „ófullburða fóstur, það sem fæðist fyrir tímann“.43 Hér virðist vera um
sama orðið að ræða. Um ótímaburð er meðal annars talað í Biblíunni og
ennfremur í orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld en þar segir svo:
38 Íslensk hómilíubók. Fornar stólræður, Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran og
Gunn laugur Ingólfsson sáu um útgáfuna, Reykjavík: Hið íslenska bókmennta-
félag, 1993, bls. 197. Greinarhöfundur skáletrar.
39 Íslensk orðabók, bls. 732.
40 Føroysk orðabók, Þórshöfn: Føroya Fróðskaparfelag og Fróðskaparsetur Før oya,1998,
bls. 860.
41 Ritmálssafn Orðabókar Háskóla Íslands, http://www.lexis.hi.is. Dæmin eru fengin
frá Jóni Trausta, Ritsafn I–VIII, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guð jóns sonar
1939–1946; Verus Christianismus, Edur sannur Christenndomur, Kaup manna höfn,
1731–32, bls. liv.
42 Verner Dahlerup, Ordbog over det danske sprog XIV, bls. 147.
43 Íslensk orðabók, bls. 744.