Skagfirðingabók - 01.01.1980, Blaðsíða 42
SKAGFIRÐINGABÓK
á hilluna, heldur hélt lestri nytsamra bóka áfram alla ævi og var
prýðilega að sér í ýmsum greinum, sem ekki komu búskapnum
við, auk þess, sem honum kom sérstaklega við. Las hann allt, sem
hann náði í um framfarir á öllum sviðum, allt til síðustu ára.
Síðustu árin varð hann blindur á öðru auganu, og dapraðist þá
og smám saman sjónin á hinu auganu, og háði þetta honum mjög
við lestur og skriftir. Og við skriftirnar háði það honum ekki hvað
sízt, að hann varð afar skjálfhentur, og það svo, að hann gat
ekkert skrifað nema helzt með ritblýi.
Hinum elzm börnum sínum kenndi hann það, sem heimtað
var, að þau kynnu til fermingar, auk reiknings, dönsku o. fl. En
síðar hélt hann sérstakan heimiliskennara.
Lítið mun hann hafa ritað, er á prent kæmi. Veit eg ekki um
annað en „Bréf frá Noregi“ í Andvara 1879, „Nokkrir sundur-
leytir þankar um búskap“ í Búnaðarritinu 1897 og „Hvernig verða
þúfurnar til“ í sama riti sama ár. Enn fremur mun hann hafa
skrifaði ritgjörð um súrhey í sama tímarit, auk fréttapistla í blöð;
allt mun þetta vera nafnlaust, eða með dulnefni (5+2=7) nema
Bréf frá Noregi. Allt, sem hann skrifaði, var skýrt og glöggt, rit-
hátturinn látlaus, en ákveðinn, og alveg laus við persónulega
áreitni.
Heimilið
Á búskaparárum Einars var ætíð margt heimilisfólk á
Hraunum, oftast 20—30 manns. Þurfti því mikið til bús að leggja
en aldrei varð þar þurrð á mat, eða öðru því, er til heimilisins
þurfti. Og mun þó oft og þráfaldlega hafa verið látið ýmislegt
af hendi rakna til fátæklinga í sveitinni, auk þess sem gestum og
gangandi var veitt daglega.
Heimilislífið var ágætt, og vildi Einar í engu draga úr gleð-
skap og ánægju heimilisfólksins; en það vildi hann, að ekki gengi
slíkt úr hófi, enda varð það og aldrei.
40