Skagfirðingabók - 01.01.1980, Page 44
SKAGFIRÐINGABÓK
Hversdagslega var hann gæflyndur og glaðlyndur. Út af þessu
gat þó brugðið, og var það einkum þegar gigtin var að kvelja
hann í bakinu; en það var þrálátur óvinur hans á síðari árum.
Þá var hann alltaf þegjandalegur og vildi þá sem minnst láta
við sig tala.
Frjálslyndur var Einar í trúarskoðunum sínum og hneigðist að
„spíritisma“ á síðustu árum sínum, án þess að sleppa haldi á
barnatrú sinni.
Hann var veill fyrir brjósti á unglingsárum sínum; en þegar
hann eltist bar ekkert á þeirri veilu, og mátti hann heita heilsu-
góður alla ævi, að öðru leyti en þessu, og svo gigtinni, sem þjáði
hann í baki mörg síðustu ár ævinnar, og það stundum svo, að hann
hafði tæplega fótavist.
Síðustu daga ævinnar var hann lasinn — hvíldi yfir honum
óvanalegt magnleysi og mikill drungi. A 9. eða 10. degi þessa
lasleika lagðist hann síðara hluta dags upp í rúm til að hvíla sig.
Sofnaði hann þá vært, en vaknaði ekki aftur. Þegar komið var inn
til hans, svaf hann rólega, en eftir litla stund var hann dáinn.
Á borðinu við rúmið lá bók; var brotið blað á einum stað, og
hefir hann að öllum líkindum verið að lesa í henni áður en hann
sofnaði. Bókin var „Predikanir“ Páls prests Sigurðssonar frá Gaul-
verjabæ, og á opnu þeirri, er blaðið var brotið við, var þetta vers
úr Passíusálmunum:
„Minn Jesú, andlátsorðið þitt
í mínu hjarta eg geymi;
sé það og líka síðast mitt,
þá sofna eg burt úr heimi“.
Og þótt ekkert sé hægt að fullyrða, þá eru þó miklar líkur til
þess, að þetta vers hafi einmitt verið það, sem hann hafði í huga
síðast, áður en hann sofnaði, á meðan hann vissi síðast af sér,
hérna megin við hina dimmu móðu.
Þannig lauk ævi þessa merka manns, á þann bezta hátt, sem
hægt er að hugsa sér — þrauta og kvalalaust.
42