Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 8
A r n a l d u r I n d r i ð a s o n
8 TMM 2013 · 4
En það svar dugar ekki áhugasömum og forvitnum fyrirspyrjendum og við
klórum okkur í kollinum og reynum að svara einhverju meiru. Ástæðurnar
eru ugglaust nokkrar, segjum við og tölum um einangrunina hér norður
í íshöfum, sem varð til þess að við urðum að reiða okkur á okkar eigin
skemmtanir, en svo komum við alltaf að því sama: Íslendingar eru menn-
ingarþjóð frá fornu fari. Við erum bókmenntaþjóð. Og af hverju? erum við
enn spurð. Það er aðeins eitt svar til við því: Vegna handritanna. Vegna þess
að það atvikaðist þannig að við byrjuðum að skrifa bækur um leið og hér
þróaðist íslenskt samfélag og við höfum aldrei látið af þeirri iðju.
Við reynum að skýra það út fyrir fólki að í gömlu handritunum sé að
finna merkilegar heimildir um það hvernig samfélag verður til og hvernig
það leysist upp og að slíkar frásagnir séu einstæðar, að minnsta kosti í
okkar vestræna heimi. Að fræðimenn hafi bent á að Íslendingasögurnar séu
farvegur samfélags til þess að skilgreina sjálft sig í minnstu smáatriðum.
Þær fjalli ekki síst um lagaumhverfið og séu eins konar leiðarvísir um það
réttarríki sem þróaðist í öndverðu þegar hér var ekkert framkvæmdavald:
Þegar við vorum villta vestrið. Þær fjalli um fornar siðvenjur og heitustu
ástarmál og hvernig menn komust ekki hjá því að verja sæmd sína. Að
hefndin leiki stórt hlutverk í lífi fólks, hefndarskyldan hvíli á herðum þeirra
sem telji sig órétti beitta, og þær fjalli um langrækni, öfund, losta, allar
syndir mannanna sem hægt er að hugsa sér, en líka tryggð og vináttu, og
þær séu fullar af húmor. Þær segi vissulega frá stórum hetjum en einnig
lítilmótlegustu persónum. Þær segi frá leit að reglu í samfélaginu, sáttmála
sem samfélag hlýtur að verða að lifa eftir, og þeim mannlegu eigindum sem
við vildum annaðhvort forðast eftir mætti eða hlúa að, um leið og ný þjóð
varð til.
Það er ekki svo lítið að eiga slíkar sjálfshjálparbækur sem fylgt hafa
þjóðinni í blíðu og stríðu. Því það hafa handritin svo sannarlega gert.
Þau hafa ekki átt sjö dagana sæla í gegnum tíðina, ekki fremur en fólkið
í landinu. Þau liggja í tunnum á hafsbotni. Þau hafa verið étin í hungurs-
neyðum. Notuð í skóleppa. Þau hafa lent í eldgosum og jarðskjálftum og
horft upp á eigendur sína drepast úr dauðaplágum hvers konar. Og ekki síst
hafa þau orðið eldinum að bráð. Handritin eiga sínar hetjur sem gott er að
minnast á hátíðarstundum eins og þessari. Við höldum hér upp á afmæli
Árna Magnússonar. Brynjólfur Sveinsson var einnig ötull bókasafnari.
Enn aðrir koma við sögu. Hugsanlega sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson.
Enginn veit hvernig Brynjólfur fékk Konungsbók eddukvæða í hendur
en einhver fallegasta myndin sem við freistumst til þess að teikna upp úr
sögu handritanna er sálmaskáldið á leið í Skálholt með Konungsbók undir
arminn að koma henni í hendur Brynjólfi biskupi. Er hún sönn? Hvers vegna
ekki? Kannski eins sönn og íslensk fornsaga getur orðið.
Frægasti einstaki atburðurinn í hamfarasögu handritanna er auð vitað
bruninn í Kaupmannahöfn árið 1728. Eins og kunnugt er brást Árni Magn-