Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 21
D v e r g a r o g s t r í ð
TMM 2013 · 4 21
Ég ek löturhægt framhjá slysstaðnum, framhluti bílsins er horfinn líkt og skógurinn
hafi gleypt hann. Úti í vegkantinum er annar lögreglumaður í endurskinsvesti, ég
sé hann taka upp fótlegg af götunni, hann er í karlmannsskóm og svörtum sokkum.
Lögreglumaðurinn heldur á fótleggnum rétt við bílinn minn og notar hina höndina
til að beina mér áfram. (Afleggjarinn, bls. 106)
Mig langar í sambandi við skó að víkja að atviki sem átti sér stað í síðustu
viku þegar Íslendingar misstu af einstæðu tækifæri til að hafa áhrif á heims-
málin. Og í beinu framhaldi langar mig til að velta því fyrir mér hvort það
sé munur á því þegar íslenskur rithöfundur fer til útlanda eða íslenskur
ráðherra. Eða með öðrum orðum hvort rithöfundur hefði tæklað það
vandamál öðruvísi að vera illt í fæti þegar hann hitti valdamesta mann heims
til að ræða napalmbrennd börn í Sýrlandi? (Ég vil þó taka það strax fram að
ég tel ekkert athugavert við það að vera í strigaskóm eða söndulum eða hvaða
hentugum skóbúnaði sem er þegar manni er illt í fæti.) Hvað til dæmis ef
við skiptum forsætisráðherra út fyrir borgarstjóra sem vill svo skemmtilega
til að er rithöfundur og hefur tekið að sér að vera málsvari erfiðu málanna
sem fáir nenna að sinna, mannréttinda – og friðarmála. Spurningin felur
í sér aðra spurningu sem er sú hvort einhver von sé til þess að dvergþjóð
geti átt sér eigin rödd í hinu stóra samhengi útlanda? Ég held að það þurfi
hvorki íslenska sendinefnd né túlkaþjónustu til að segja; „Mister president
we Icelanders are worried about Syria but we are ready for war if everyone
else is.“ Öðru máli hefði gegnt ef fulltrúi okkar hefði haft hugmyndaflug til
að notfæra sér þá sirka sjö mínútna athygli sem fjölmiðlar heimsins hefðu
sýnt manni í hans stöðu, skæddum fjólubláum strigaskóm á báðum fótum.
Og hvaða skilaboðum hefði hann getað komið áleiðis til heimsins (fyrir utan
að benda á það að hann kæmi frá herlausri þjóð, að hann hefði áhyggjur af
áhrifum af bráðnun heimskautanna á Golfstrauminn og losun geislavirks
úrgangs á norðurslóðum, svo nefnd séu nokkur þeirra mála sem hljóta að
brenna hvað mest á þjóð hans)? Já, hvað hefði hann getað sagt? Í stað þess
að draga athygli að bágtinu sínu hefði hann til dæmis getað dregið athygli
að bágti heimsins og sagt: „Mister president; það felst meira hugrekki, meira
andlegt þrek í fyrirgefningu og kærleik en í hefnd.“ Svo haldið sé tryggð
við bókmenntirnar má benda á að þar hefði hann verið í ágætum selskap
þekktra persóna á borð við Myshkín í Fávita Dostojevskís sem tókst á við
grimmd og undirferli með góðmennsku sinni. Hann hefði getað bætt við:
blóð kallar á meira blóð, sjáðu Macbeth, eða heldurðu að loftárásir séu svar
við siðblindu og sálarangist í heiminum?
Nei, hættu nú alveg, hvað rithöfundar geta verið barnalegir, segja menn
nú. Þar spyr ég á móti: er ekki búið að þrautreyna allt annað eða hvað hefur
verið stofnað til margra stríða á þessari öld til að verja friðinn? Tuttugu og
sjö? Fjörutíu og sex? Man ég ekki rétt að það séu tuttugu og tvö núll á eftir
milljónum dollaranna sem hergagnaiðnaðurinn veltir árlega í heiminum?