Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Qupperneq 118
D ó m a r u m b æ k u r
118 TMM 2013 · 4
komin á dagskrá í háskólakennslu. En
þá er ótalið framlag höfundarins sjálfs.
Annan ágúst árið 2011, rúmu ári áður
en bókin kom út, birti Eiríkur Örn eftir-
farandi klausu á bloggi sínu undir yfir-
skriftinni „Eitt“:
Sumarið 2008 byrjaði ég að skrifa
skáldsögu sem kemur vonandi út haustið
2012. Skáldsagan heitir Illska en er ekki
eiginlegt framhald bókarinnar Gæsku,
sem kom út árið 2009. Einhvern tíma í
haust – líklega seint – mun ég ljúka fyrsta
uppkasti að Illsku. Þessu bloggi er ætlað
að fjalla um vinnuna við Illsku, allt það
sem hefur truflað mig og truflar mig enn
(það eru nokkrir mánuðir í fyrsta hand-
rit). Það fyrsta sem ég vil segja er þetta:
Ég óttast ekki bara að mér takist ekki að
skrifa þessa bók; ég óttast að mér takist
ekki einu sinni að blogga um hana.3
Fram í apríl árið 2012 birti Eiríkur svo
áttatíu númeraðar færslur um bókina.
Bloggið hélt áfram eftir að hún kom út
og þar hafa ekki aðeins birst fréttir af
viðtökum bókarinnar heldur einnig
áframhaldandi vangaveltur höfundar
um hana og kaflar úr handritinu á fyrri
stigum sem ekki rötuðu í lokagerðina.
Hvar endar skáldsagan Illska? mætti
spyrja. Eða endar hún kannski ekki. Má
líta á hana (og aðrar skáldsögur í vax-
andi mæli) sem opið kerfi, nokkurs
konar organisma sem teygir sig um net-
heima og aðra heima.
Rannsóknir á tengslum milli ævi höf-
undar og ætlunar hans með texta sínum
hafa ekki átt upp á pallborðið í bók-
menntafræði síðustu áratuga. Á hinn
bóginn má halda því fram að persóna
höfundarins, eins og hún birtist okkur á
netinu og í kjötheimum, skipti sífellt
meira máli, ekki bara fyrir markaðs-
setningu bóka heldur alla viðtöku
þeirra, þá merkingu sem þær taka á sig
og þann farangur sem hengdur er á þær.
Danski bókmenntafræðingurinn Jon
Helt Haarder hefur fjallað um það sem
hann kallar á dönsku „performativ bio-
grafisme“ eða ævisögulega gjörninga í
samtímabókmenntum og listum. Haar-
der bendir á hvernig listamenn í sam-
tímanum nota eigin ævi og persónu á
margvíslegan hátt í textum og öðrum
listaverkum, leika með skilin milli þess
einkalega og opinbera.4 Líf Illsku utan
spjalda skáldsögunnar sjálfrar má sjá í
þessu ljósi. Eiríkur Örn er virkur þátt-
takandi í viðtökum eigin verks og stígur
þar dans við lesendur sína og gagnrýn-
endur.
Þetta ytra líf sögunnar má svo tengja
enn einum þræði hennar, Illsku sem
sjálfssögu (metafiction). Á nokkrum
stöðum tekur textinn sjálfur til máls og
bendir á sjálfan sig:
Hæ!
Halló!
L-E-S-A!
Halló! Ertu ennþá að fylgjast með?
Þetta er textinn. Við erum textinn. Ég
ætla að segja þér upp og ofan af þriðja
ríkinu. Ekki slökkva á bókinni! (10)
Þetta er textinn í bókinni. Ég er textinn,
ég er bókin og ég er að skrifa textann í
bókinni. Ég er ekki höfundur bókarinnar.
Eiríkur er höfundur bókarinnar (þið getið
hringt í hann og fengið það staðfest, ef
þarf). Allt er eins og Hitler. (118)
Þessi sjálfsvísun er hluti af margröddun
textans, bætir við og bendir á fjölbreyti-
leika hans og breidd. Illska er pólitísk
skáldsaga, söguleg skáldsaga, uppvaxt-
arsaga, drengjasaga og fleira til en sjálfs-
vísunin minnir okkur á að hún er líka
tilraun um skáldsögu, um form skáld-
sögunnar og möguleika þess í samtím-
anum.