Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Qupperneq 6
B r y n d í s B j ö r g v i n s d ó t t i r
6 TMM 2014 · 3
að mestu upp í Hafnarfirði en Ingimar bjó síðustu árin að Hamraendum í
Borgarfirðinum þar sem hann stundaði ræktun og rannsóknir. Pabbi var
nítján ára þegar Ingimar drukknaði og minnist hann þess að öll fjölskyldan
hafi farið að tína upp jarðneskar leifar Ingimars úr fjörunni. Flest fannst
en þó aldrei höfuðið. Það fylgir þá venjulega sögunum af Ingimar að hann
hafi verið talinn vera einskonar „furðufugl“ – afskaplega trúgjarn, jafnvel
barnalegur en engu að síður mjög fróður og fróðleiksfús. Í minningargrein
eftir Sigvalda Hjálmarsson, forystumann í Guðspekifélaginu, sem birtist á
afmælisdag Ingimars 18. nóvember 1959 – þegar hann var jafnframt jarð-
aður (eins og við var komið) – stendur eftirfarandi: „Hann batt ekki bagga
sína sömu hnútum og samferðamenn hans.“ Og svo:
Hann fór algerlega sínar eigin götur, [í] hugsun og háttum, var einrænn og dulur,
en sífelldlega rór og glaður, mesta ljúfmenni, en skapfestumaður mikill, athugull vel
og við nánari kynni laukst það upp fyrir mér, að hann var bráðvel gefinn. Í kyrrum
hugarfylgsnum Ingimars þreifst áreiðanlega fátt misjafnt. Þar var bjart og hreint,
enda valdi hann sér göfug hugðarefni. Hann sóttist eftir einveru enda að nokkru
einsetumaður síðustu árin, las mikið og hugsaði enn meira. Hann átti auðvelt með
að tileinka sér erfið hugræn viðfangsefni. … Og hann átti andlegar hugsjónir, er
hann mat meira en annað.5
Heimurinn er að sjálfsögðu fullur
af furðufuglum (að mér sýnist lítur
annar helmingur mannkyns á sig
sem furðufugla en hinn sem mjög
„normal“), en þrátt fyrir það tók
ég árið 2012 að leita heimilda um
þennan frænda minn sérstaklega
– í von um að skilja betur hvers-
konar „furðufugl“ hann var. Upp
úr krafsinu hafði ég nokkrar
textaglefsur úr dagblöðum sem
vörpuðu daufri skímu á Ingimar.
Pabbi hafði þá oft haft orð á að
Ingimar hefði verið uppfinninga- og
vísindamaður. Hann reyndi til dæmis
að smíða eilífðarvél, var spíritisti,
grænmetisæta, stundaði yoga, trúði
á fyrri líf og endurholdgun og reyndi
að taka viðtal við drauga. Þá talaði
hann einnig fyrir lífrænni ræktun
og gegn kjarnorkusprengjunni sem
hann hafði miklar áhyggjur af. Hann
skrifaðist á við bæði Tryggve Lie og
Minningarorð um Ingimar eftir Sigvalda
Hjálmarson.