Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Síða 106
K r i s t a A l e x a n d e r s d ó t t i r
106 TMM 2014 · 3
undan mér í dyragættinni. Síða rauða hárið féll meðfram tígulegum líkama
hennar eins og snákar og reykurinn sem hún blés frá sér breytti herberginu í
þokukenndan ævintýraheim þar sem allt gat gerst. „Er þér ekki annars sama
þótt ég reyki?“ heyrði ég hana spyrja, eins og í fjarska, en meðvitund mín
hékk á bláþræði svefns og vöku. Ég veifaði hendinni til samþykkis og seig
niður á koddann.
***
Sjö snákar skríða, um gólf mitt líða, stingandi hnífarnir samsíða. Sjö snákar
bíta, hár mitt slíta, blóð mitt og líkama, fullnýta. Sjö snákar flissa, eiturkyssa,
fylla mig óráði, ýmissa. Sjö snákar líða, í huga mér skríða, stingandi hnífarnir
samsíða. Sjö snákar, sjö snákar, sjö snákar…
***
Ég vaknaði með dynjandi verk í ennisholunum og sá rauðan runna snúa baki
í mig í rúminu. Ég settist upp og kíkti upp í loftið eins og vanalega. Ekkert,
hvorki skuggar né snákar, ég andvarpaði. Allt í einu snéri rauði runninn sér
við í rúminu og brosti. Ég brosti á móti en vissi ekki af hverju, ég þekkti hana
ekki neitt. Ég hafði ekki verið með konu í rúminu hjá mér í rúmt ár og var
orðinn óþægilega ólærður í því að deila rúmi með einhverjum. Hún horfði
rannsakandi á mig. „Hvað var þig að dreyma, klakakall?“ Ég lagðist á bakið
og starði upp í loftið. „Mig dreymdi þig í snákalíki.“ Hún lagði höndina yfir
augun mín og mér fannst ég ekki þurfa að vakna strax.
Næstu dagar urðu að vikum og næstu vikur urðu að mánuðum. Ég og
stelpan mín vorum óaðskiljanleg frá fyrsta degi.
Hún var fljót að flytja inn og ég andmælti ekki, ég hafði ekki verið jafn
hamingjusamur í tvö ár. Ég hafði greinilega gleymt hvað hamingja var, ég
hafði að minnsta kosti gleymt hvernig fullnæging með einhverjum öðrum
en sjálfum mér var. Þetta var að sjálfsögðu aðeins líkamlegt samband,
mig langaði ekki að blanda henni í frávita huga minn, né leyfa henni að
krauma í sótugri sál minni. Hún spurði engra spurninga og ég þurfti engu
að svara. Sambandið okkar var eins og sambönd eiga að vera, aðskildar
sálir, samrýndir líkamar. Engin áhætta. Ætli ég hafi ekki upphafið hana
eilítið sem fyrirskipaðan bjargvætt minn. Hellenískan engil, afsprengi upp-
safnaðrar einsemdar minnar.
***
Mér er heitt í heilanum, eins og andskotinn hvíli logsuðutæki við eyrað á
mér. Ég er vaknaður á ný, ég finn það, en hugþungur eins og ég hafi vaknað
eftir hundrað ára svefn. Ég sest upp í rúminu og heilsa dansandi djöflunum í