Hugur - 01.01.2018, Page 68
68 Stefán Snævarr
styðjanleiki og fallvelti meðal helstu kennimarka skynseminnar. Heilindakrafan
er ögn annars eðlis, við getum ekki horft inn í huga manna til að kanna hvort þeir
eru einlægir. En atferli þeirra getur gefið vísbendingu um það. Ef ég held alls ekki
loforð mitt þótt ég hafi alla möguleika á því, og engar brýnni skyldur, má velta því
fyrir sér hvort ég hafi gefið það af einlægni.
Sættir eru innbyggð markmið málgjörða og þar með boðskipta. Tökum sem
dæmi staðhæfu (e. constative speech act), þ.e. málgjörð þar sem staðhæfing er í
fyrirrúmi. Ég segi t.d. í fullri alvöru: „Tunglið er í 300.000 kílómetra fjarlægð frá
jörðinni.“ Þetta get ég bara sagt og meint ef ég geri ráð fyrir að aðrir myndu vera
sammála mér svo fremi þeir hafi aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta,
séu með réttu ráði o.s.frv. Í reynd er þetta óframkvæmanlegt en staðhæfing um
staðreyndir hefur ekkert gildi nema gert sé ráð fyrir einhverju slíku.18 Athugið
að það er staðhæfingarþáttur í staðalmálgjörð í þeim skilningi að sáttakrafa af
þessu tagi (krafa um sættir um fjarlægð tungls frá jörðu) er nauðsynleg forsenda
málbeitingar.
Habermas er ekki eini heimspekingurinn sem leggur áherslu á þátt sátta í
boðskiptum. Wittgenstein hélt því fram að sættir jafnt um skilgreiningar, dóma
sem lífshætti væru forsendur þess að menn geti stundað boðskipti með fulltingi
tungumálsins. Við verðum að vera saupsátt að kalla ef við eigum að geta talað
saman.19 Ósamkomulag lifir sníkjulífi á samkomulagi. Ef við getum ekki sam-
mælst um hvað það er að vera ósammála, þá getum við ekki verið ósammála. Við
verðum alltént að vera sátt um merkingu orða til þess að geta verið ósammála, t.d.
um pólitík eða heimspeki. Ef ekki, þá tölum við framhjá hvert öðru en þá erum
við heldur ekki ósátt.
Habermas hélt því lengi fram að í meginrökræðum séu innbyggðar tilvísanir
til og væntingar um (e. anticipation of) kjörræðustöðu (þ. ideale Sprechsituation),
hún er viðmið og innbyggt markmið meginrökræðna. Í kjörræðustöðu eru allir
mælendur sjálfráða, hafa jafna möguleika á þátttöku í rökræðum og beita ekki
bolabrögðum. Þeir hafa jafnan aðgang að öllum upplýsingum, nógan tíma til
moða úr þeim og rökræða við aðra.
Hvað er átt við með „tilvísunum til og væntingum um kjörræðustöðu“? Notum
aftur sem dæmi staðhæfinguna um fjarlægð tungls frá jörðu. Í henni er innbyggð
tilvísun og vænting um að allir myndu verða sammála um að hún sé sönn, hafi
þeir tækifæri til að kanna málið til hlítar. Fleira hangir á spýtunni: Þegar við
tölum saman verðum við að gera ráð fyrir því (vænta þess) að við sjálf og viðmæl-
endur okkar séum í megindráttum sjálfráða og ábyrg gerða okkar. Enn fremur
hljótum við að ganga út frá því að við getum skilið hvert annað og að við höfum
rétt til að tjá okkur um þau mál sem við ræðum. Auk þess væntum við þess í reynd
að allir þátttakendur í samræðunni hafi jafn mikla möguleika til þátttöku, enginn
18 Glöggt fólk heyrir hér bergmál frá sannleikskenningu Charles Sanders Peirce: Sannleikur er það
sem samfélag rannsakenda myndi, þegar til langs tíma er litið, sættast á að væri satt svo fremi sem
rannsakendur hefðu nægan tíma og aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta. Peirce 1958:
133. Habermas boðaði lengi sáttakenningu um sannleikann, innblásinn af Peirce. Habermas 2009:
208–269.
19 Wittgenstein 1958: 88 (§241–242).
Hugur 2018meðoverride.indd 68 24-Jul-18 12:21:24