Hugur - 01.01.2018, Qupperneq 103
Dýrin, skynsemin og hið samúðarfulla ímyndunarafl 103
hugtaka.46 Þannig er til dæmis eðlilegt að taka svo til orða að sýna eigi fuglum
umhyggju og samúð í vetrarhörkum, og einnig að gefa eigi veiðidýrum sanngjörn
tækifæri.47 Við tölum um samband okkar við hunda, hesta og fleiri tegundir dýra
sem vináttu eða félagsskap. Við tölum um velferð húsdýra og þá skyldu að láta
dýr ekki þjást. Við tölum um virðingu fyrir dýrum og einnig um niðurlægjandi
framkomu við þau.
Sem dæmi um hvernig hugsanir okkar um hið síðastnefnda geta mótast af sýn
á dýrin sem förunauta okkar má nefna atvik sem Diamond ræðir í grein sinni
„Injustice and Animals“:
Á myndbandsspólu sem stolið var frá Rannsóknarstofu höfuðáverka við
Pennsylvaníu-háskóla var myndskeið sem kom sérlega illa við marga. Þar
mátti sjá hluta starfsliðsins hafa einn bavíananna að háði og spotti. Að
gera dýr að viðfangi kímnigáfu fólks á þennan hátt, gera það að atriði í
brandara manns á þess kostnað er viss aðferð til að sýna vald sitt yfir því.
Líkami dýrsins, sem er allt sem það á … er hafður að háði og spotti.48
Diamond bendir á það að í umræðum um réttindi dýra sé nær aldrei rætt um
þessa tegund meðferðar á dýrum. Ástæðan er sú að samkvæmt hinni hefðbundnu
röksemd fyrir réttindum dýra byggjast þau á hagsmunum þeirra. Hagsmunir dýrs
eru svo sagðir byggjast á eiginleikum eins og þeim hvað dýrið gæti verið með-
vitað um, eða hvað gæti talist fullnægja náttúrulegum þörfum þess. Ef dýrið er
ekki meðvitað um það sem menn gera því eða þjáist ekki vegna þess, þá er erfitt,
samkvæmt slíkum hugsunarhætti, að sýna fram á að menn geri því eitthvað illt
með því að hafa það að athlægi. Þó virðist mörgum að slík framkoma sé skýrt
dæmi um eitt af því hörmulega sem menn finna upp á að gera á hlut dýranna. Ein
skýringin á því hvers vegna það reynist mörgum erfitt að svo mikið sem koma
orðum að því ranglæti sem hér er á ferðinni, kann vel að vera sú að þeir hafna
meðvitað eða ómeðvitað orðræðu um menn og dýr sem förunauta. Þeir hafna með
öðrum orðum hinum ríkulega sjóði hugsana um líf okkar með og ábyrgð okkar á
meðbræðrum okkar og -systrum, jafnt úr heimi manna sem málleysingja. Það er
46 Diamond 1996a: 329. Segja má að dómar um þýðingu hins mannlega, og enn frekar um þýðingu
dýranna sem förunauta okkar, séu bæði hlutlægir og opnir. Gaita 2003: 180 bendir á það að dómar
„í heimi þýðingarinnar“ taki á sig formið „Þetta er svona, er það ekki?“ og bjóði heim andsvarinu
„Já, en …“. Við getum með öðrum orðum fellt ýmiss konar vel rökstudda dóma um þýðingu
hlutanna, en slíkir dómar eru aldrei endanlegir – við getum ekki ákvarðað fyrirfram að engin
önnur og betri leið sé til að sýna fram á þýðingu hlutanna.
47 Um slíka samúð með dýrum, sjá til dæmis dagbókarfærslu Henrys Davids Thoreau, Thoreau
1961: 126: „Eigum við ekki að hafa samúð með bísamrottunni sem nagar af sér þriðja fótinn
[til að losna úr gildru], ekki vegna meðaumkunar með henni í þjáningum sínum, heldur í ljósi
skyldleika okkar í dauðleika [our kindred mortality], sem færir okkur skilning á tilkomumiklum
sársauka hennar og hetjulegri dygð? Gera örlögin okkur ekki að bræðrum hennar?“ Sjá einnig
bók fjallgöngugarpsins Walters Bonatti, On the Heights, Bonatti 1979, en þar fléttast hugsanir
fjallamannsins, sem horfist í augu við eigin lífsháska, saman við djúpa samúð með og umhyggju
fyrir fiðrildi sem verður á vegi hans, og við hugsanir um sameiginlega berskjöldun þeirra og
endanleg örlög. Þetta dæmi kemur við sögu í Gaita 2003: 117–139.
48 Diamond 2001: 137.
Hugur 2018meðoverride.indd 103 24-Jul-18 12:21:26