Saga - 2021, Blaðsíða 69
Ísland
Eins og Japanir eiga Íslendingar gjöful fiskimið og ýmsir hvalastofn-
ar lifa í Norður-Atlantshafinu umhverfis Ísland. Sumar af elstu rit -
uðu heimildum Íslendinga geta um hvalreka og gefa þær skýrt til
kynna hve mikill fengur þótti í hvalnum.23 Í hinni fornu Jónsbók frá
1281 er til dæmis ítarlega fjallað um hvernig skiptum skuli háttað í
tilfelli hvalreka og eru þau lög enn í gildi.24 Ólíklegt þykir að Íslend -
ingar hafi stundað miklar hvalveiðar framan af en þó er talið að þeir
hafi allt frá miðöldum bæði skutlað hval í einhverjum mæli og rekið
hann á land.25 Frá því snemma á sautjándu öld og allt fram undir
lok nítjándu aldar voru hvalveiðar við Ísland helst stundaðar á
Vestfjörðum.26 Hvalurinn var notaður bæði til manneldis og í fóður.
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, þar sem greint er frá
rannsóknum þeirra á íslenskri náttúru og mannlífi á árunum 1752
til 1757, koma hvalir og hvalveiðar nokkuð við sögu. Þeir lýsa meðal
annars gegnd „hvalfiska“ í kringum landið og aðferðum Íslendinga
við að nýta hval sem barst nálægt landi hvort sem dýrið var dautt
eða lifandi.27 Þótt Íslendingar hafi ekki sjálfir stundað hvalveiðar að
ráði fyrr en á tuttugustu öld áttu miklar veiðar sér stað við Ísland.
Á sautjándu öld hófu Frakkar og Spánverjar að sækja mjög stíft á
Íslandsmið og mátti strax greina áhrifin á hvalastofna eins og Eggert
og Bjarni lýstu: „Fyrrum var mikil gengd hvalfiska við vesturströnd
Íslands. En spænskir og franskir hvalveiðimenn hafa veitt þá af
slíku kappi við strendur landsins, bæði á síðastliðinni öld og framan
af þessari, að þeim hefir ýmist verið útrýmt eða þeir hafa hrakizt
lengra norður í höf.“28
japanska tímabilið í hvalveiðum … 67
23 Smári Geirsson, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, 9–11.
24 Jónsbók: Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á Alþingi árið 1281 og endurnýjuð um
miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1587, útg. Gísli Baldur Róbertsson, Már Jónsson
og Haraldur Bernharðsson, Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8 (Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 2004), 199–207.
25 Trausti Einarsson, Hvalveiðar við Ísland 1600–1939, 154.
26 Smári Geirsson, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, 12.
27 Um hangið hvalspik segja þeir t.a.m. að það sé „bæði bragðbetra en selspikið
og geymist miklu betur, því það getur haldizt óskemmt í 4–5 ár“ en hvort
tveggja þóttu góðir kostir. Eggert Ólafsson, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna
Pálssonar — um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757 I (Reykjavík: Bókaútgáfan
Örn og Örlygur, 1981), 286.
28 Eggert Ólafsson, Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar I, 316–317.