Saga - 2021, Blaðsíða 89
starfsfólki hafi fækkað til muna þegar kvótinn minnkaði um helm -
ing en vafalítið hefur verið mikilvægt fyrir Hval hf. að halda starf-
seminni áfram meðan á hvalveiðibanninu stóð.
Áætlun Íslendinga um vísindaveiðar vakti hörð viðbrögð úr
mörgum áttum og það þurfti að ryðja mörgum hindrunum úr vegi
áður en sjálfar veiðarnar gátu hafist. Í fyrsta lagi þurfti að sannfæra
vísindaráð Alþjóðahvalveiðiráðsins um að áætlun Íslendinga myndi
skila tilætluðum árangri og ætti rétt á sér yfir höfuð. Vísindaveiðar
voru leyfðar samkvæmt VIII. grein hvalveiðisáttmálans en mörgum
þótti tímasetning Íslendinga tortryggileg. Í öðru lagi voru Banda -
ríkjamenn mjög andsnúnir áformum Íslendinga og óttuðust margir,
ekki síst forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi, að Bandaríkin myndu
beita Pelly-viðaukanum svokallaða við fiskimannaverndarlög sín
(e. Fisherman’s Protective Act) sem „kveður á um hugsanlegar við -
skiptalegar eða diplómatískar aðgerðir gagnvart ríkjum sem draga
úr áhrifum alþjóðlegrar fiskverndaráætlunar (e. fishery conservation
program) eða áhrifum alþjóðlegra áætlana um verndu[n] dýra í
útrýmingarhættu eða stofna sem eru í hættu“.99 Íslendingar áttu í
löngum og ströngum viðræðum við Bandaríkjamenn um vísinda-
veiðarnar eins og Jóhann Viðar Ívarsson rekur ítarlega í bók sinni,
Science, Sanctions and Cetaceans: Iceland and the Whaling Issue.100
Í þriðja lagi gagnrýndu umhverfisverndarsamtök áætlun Íslend -
inga harðlega. Greenpeace fór þar fremst í flokki og hrundu samtök-
in af stað stórfelldum herferðum gegn íslenskum útflutningi á lykil -
mörkuðum, sér í lagi í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Þegar mest
gekk á fékk íslenska sendiráðið í Washington þúsundir mótmæla-
bréfa á viku101 og stórar verslunarkeðjur á borð við Aldi í Þýska -
landi hættu að selja íslenskar vörur.102 Íslendingum var ekki síður
brugðið þegar tveir meðlimir umhverfisverndarsamtakanna Sea
japanska tímabilið í hvalveiðum … 87
99 Vef. „Skýrsla utanríkisráðherra um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og ann-
arra ríkja, samkvæmt beiðni,“ 8.
100 Jóhann Viðar Ívarsson, Science, Sanctions and Cetaceans, 13–82.
101 „Þúsundir bréfa og látlaust hringt,“ Morgunblaðið, 26. september 1985, 64. Í
greininni er viðtal við Hörð Bjarnason, sendiráðunaut í sendiráði Íslands í
Washington, en hann segir m.a.: „Þetta er áhyggjuefni og enginn vafi á að
þessi herferð gæti skaðað íslenska hagsmuni,“ en þar er átt við herferð
Greenpeace gegn Íslandi og íslenskum afurðum í Bandaríkjunum.
102 Jóhann Viðar Ívarsson, Science, Sanctions and Cetaceans, sjá kafla 3 sem fjallar
ítarlega um herferðir Greenpeace gagnvart Íslandi, bæði í Bandaríkjunum og
í Þýskalandi, 83–133.