Saga - 2021, Side 184
Kyngervi
Það er eftirtektarvert að doktorsefnið notar hvergi hugtakið kyngervi eða
skyld hugtök til að varpa kerfisbundið ljósi á þátt kvenna í lýðræðisþróun
á Austurlandi. Þannig verður lesandanum erfitt að átta sig á þeirri kynjun
sem óneitanlega hlýtur að hafa einkennt þetta ferli líkt og flest annað í
mann legu samfélagi. Það skortir frekari skýringar á því hvernig doktors -
efnið sér hlutverk Arnbjargar fyrir sér sem tilvik í rannsókninni því það er
ekki fyllilega ljóst hvað umfjöllunin á að draga fram. Á hvaða hátt er Arn -
björg einstök? Getur hún sagt okkur eitthvað um aðrar konur og lýð ræðis -
þróun á Austurlandi á þessum tíma?
Það er raunar víðar sem kynjaðar víddir lýðræðisþróunarinnar eru óljós-
ar, ekki síst í annarri tilviksrannsókn sem fjallar um fjölskylduna í Skógar -
gerði í Fellahreppi en hún tók virkan þátt í félagsstarfi byggðarlagsins.
Systkinin, þrjár konur og fjórir karlar, dvöldu flest til lengri eða skemmri
tíma erlendis eða í öðrum landshlutum sem víkkaði sjóndeildarhringinn og
hafði þannig áhrif á lífsviðhorf þeirra og þá framtíðarmöguleika sem þau
sáu fyrir sér. Í þessari umfjöllun fá tveir bræðranna áberandi stórt rými,
aðallega vegna þess að bréfasöfn þeirra eru varðveitt. Þó er greint frá mjög
áhugaverðum samskiptum eins bróðurins við tvær af systrunum sem hleyptu
heimdraganum og gengu í Verslunarskólann í Reykjavík, bróður þeirra til
umtalsverðs ama (236–238). Hér væri bæði tækifæri og tilefni til að taka
kynjaðar víddir samskiptanna í systkinahópnum til umfjöllunar með áherslu
á þá möguleika sem stóðu annars vegar sonum og hins vegar dætrum
íslenska sveitasamfélagsins til boða. Til dæmis með stuðningi af rannsókn -
um fræðimanna á borð við Gísla Ágúst Gunnlaugsson, Ólöfu Garðarsdóttur
og Helga Skúla Kjartansson sem hafa leitt í ljós að bæjarlífið laðaði að konur
í ríkari mæli en karla vegna þess að þær eygðu þar meiri möguleika á að
framfæra sig og sína en í sveitasamfélaginu.4
Konur eru nokkuð sýnilegar í ritgerðinni en þar er þó ekki með mark-
vissum hætti gerð grein fyrir því hvaða hlutverk kyn fólks gegnir í að skapa
eða takmarka tækifæri til að láta til sín taka í almannarýminu og hafa áhrif
andmæli182
4 Ólöf Garðarsdóttir, „Þáttur kvenna í flutningum til sjávarsíðunnar við upphaf
þéttbýlismyndunar á Íslandi,“ í Rannsóknir í félagsvísindum II. Erindi flutt á
ráðstefnu í febrúar 1997, ritstj. Friðrik H. Jónsson (Reykjavík: Félagsvísinda -
stofnun Háskóla Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan,
1997), 243–253, hér 249–252; Gísli Ágúst Gunnlaugsson og Ólöf Garðarsdóttir,
„Transition into Widowhood: A Life-Course Perspective on the Household
Position of Icelandic Widows at the Beginning of the Twentieth Century,“
Continuity and Change 11, nr. 3 (1996): 435–458, hér 437–443; Helgi Skúli Kjartans -
son, „Fólksflutningar til Reykjavíkur 1850–1930,“ í Reykjavík í 1100 ár, ritstj.
Helgi Þorláksson (Reykjavík: Sögufélag, 1974), 255–284, hér 271–272.