Saga - 2021, Síða 215
Sambands ungra jafnaðarmanna og Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur. Þá var
hann varaþingmaður Alþýðuflokksins um tíma og var fulltrúi flokksins í
borgarstjórn Reykjavíkur frá 1981 til 1986. Hann var mikill áhugamaður um
velferðarmál og þeim vel kunnugur og starfaði sem framkvæmdastjóri
Húsnæðisstofnunar ríkisins í rúman aldarfjórðung, frá 1971 til 1998.
Ég varð þess þó ekki var að skoðanir höfundar lituðu verkið að öðru
leyti en hvað varðar efnistök og áherslur. Bókin er fyrst og fremst lýsandi,
þ.e. höfundur rekur atburði, hugmyndir, tillögur, löggjöf og framkvæmd í
miklum smáatriðum og af fádæma nákvæmni. Fyrir vikið tókst honum að
draga saman mikið magn af upplýsingum sem eru gagnlegar fyrir áhuga -
fólk um íslenskt stjórnmál, þjóðfélagsþróun á Íslandi og velferðarmál
almennt. Að þessu er mikill fengur sem getur stytt leiðina fyrir sagn-, stjórn-
mála- og félagsfræðinga sem munu fjalla um íslensk velferðarmál í framtíð -
inni.
Þrátt fyrir ótvírætt gildi bókarinnar hefur hún þó vissa annmarka sem
fræðirit og sá stærsti ef til vill að höfundurinn gerir lítið til að greina þá sögu
sem hann segir og fer ef eitthvað er of varlega í að draga ályktanir. Honum
er tíðrætt um hvernig ákveðnar hugmyndir birtast í tillögum, umræðum og
úrræðum — svo sem afskiptaleysisstefnan, félagsleg frjálslyndisstefna,
kaupauðgistefna og samráðshyggja — en oft meira í framhjáhlaupi fremur
en að greina hugmyndasögulegt samhengi. Stöku sinnum rýnir hann í ætlan
tiltekinna gerenda og tengsl þeirra á milli en fremur en að kafa dýpra eftir
heimildum sem gætu varpað ljósi þar á er greiningin sett fram sem vanga-
veltur með orðum á borð við „hugsanlegt er“, „ætla má“ og „ef til vill“.
Annar annmarki bókarinnar er að efnistökin eru helst til víð. Á vissan
hátt er þetta ekki annmarki því fyrir vikið fær lesandinn ítarlegar upplýsing-
ar um fleiri hliðar þróunar íslenska velferðarkerfisins en fórnarkostnaður er
að verkið verður ekki sérlega heildstætt. Þótt efnistökin séu víð tengjast
umfjöllunarefnin á ýmsan hátt. Fyrir vikið er töluvert um endurtekningar.
Uppbyggingin ber þess líka merki að það er ekki rauður þráður í sögunni
sem er verið að segja og því aðeins flakkað til í tíma sem eykur enn frekar á
endurtekningarnar.
Þannig má segja að Sigurður hafi kortlagt ítarlega hvað það var sem
gerðist en lesendur eru litlu nær um af hverju það gerðist. Það er fjöldi
spurninga sem vakna við lesturinn, til dæmis um hagsmuni og bjargir mis-
munandi þjóðfélagshópa, um hugmyndasögulegt samhengi og um tækni-,
hag- og þjóðfélagsþróun. Þá er ýmsu ósvarað um hvernig málsvörum vinn-
andi fólks tókst að knýja á um úrbætur, hvernig þeir gátu nýtt sér tiltekið
sögulegt samhengi eða hvernig þeir gátu myndað bandalög þvert á flokks-
línur til að ná fram umbótum (og þá hvernig bandamennirnir höfðu áhrif á
útfærslu umbótanna). Þannig væri til dæmis mögulega hægt að varpa ljósi
á eitt af sérkennum íslenska velferðarkerfisins, hinar bröttu tekjutengingar
sem byrja að skerða fjárstuðning við lágar tekjur.
ritdómar 213