Saga - 2021, Side 162
gætu beitt með markvissum hætti aðferðum kynjafræðanna og fleiri
nýjum nálgunum í hugvísindum.24 Ég taldi að kvennasagan væri
ófær um að sinna því mikilvæga hlutverki sem umfjöllun um bæði
kynin þjónaði, hún myndi alltaf lenda í klóm karlasögunnar — hún
yrði nokkurs konar spegilmynd hennar. Reynslan sýndi, rétt eins og
bók Helga Skúla, að yfirlitið rúmaði litla sem enga umfjöllun um
annað efni en það sem talið var „mikilvægt“ í samfélagslegu sam-
hengi. Efsta lag valdapíramídans komst þar á blað en aðrir ekki,
hvorki konur né karlar. Erla Hulda Halldórsdóttir orðar þetta ágæt-
lega í grein sem birtist í Sögu árið 2004:
Lengi vel dreymdi kvennasögufræðinga um að skrifa konur „inn í sög-
una“. Frumkvöðlar á þessu sviði töldu að niðurstöður rannsókna
þeirra myndu smám saman birtast á síðum yfirlitsrita; sögum tímabila,
þjóða, landshluta og heimshluta, en að þessu leyti hafa kvenna- og
kynjasögufræðingar ekki uppskorið eins og til var sáð. … [Það] virðist
ganga illa að skrifa sögu kvenna inn í almenn yfirlitsrit og sögubækur
yfirhöfuð.25
Erla Hulda vildi þrátt fyrir allt ekki gefa yfirlitsritin upp á bátinn,
fannst þau gagnleg til ýmiss brúks. Áhersla mín beindist fyrst og
fremst að takmörkunum yfirlitsins og hvaða áhrif það hafði á nálg -
un sagnfræðinnar á fortíðina. Kvennasagan þáði auðveldlega leið -
sögn frá þeirri fræðilegu nálgun en kynjasagan gat eðli málsins sam-
kvæmt ekki unað við þær skorður sem það setti, hennar áhersla
byggðist á að leysa upp fyrir fram ákveðnar kvíar hinnar sagnfræði -
legu greiningar. Þessar valdaafstæður (e. power relations) ræddi ég
fram og til baka, meðal annars í tveimur greinum sem birtust í Sögu -
stríðinu, annars vegar grein sem nefndist „Eyðislóð: Um íslensku
sögustofnunina“ (sú sem ekki fékkst birt í Sögu nokkru fyrr) og
hinni sem hét „Gróður jarðar: Samræða um aðferðir“. Í greinunum
færði ég rök fyrir því að yfirlitinu þyrfti að fórna til þess að hægt
væri að nálgast fyrirbæri eins og kynjasöguna, einsögu (e. microhis-
tory) og póstmódernisma á ferskan og áhugaverðan hátt. Síðari
greinin, „Gróður jarðar“, fjallaði að stórum hluta um mikilvægi
kynjasögunnar og hvernig sögustofnunarmenn hefðu nálgast konur
úr fortíðinni, jafnan sem aukaatriði og valdalaus fyrirbæri.26
sigurður gylfi magnússon160
24 Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 344 og áfram.
25 Erla Hulda Halldórsdóttir, „Litið yfir eða framhjá? yfirlitsrit og kynjasaga,“
Saga 42, nr. 1 (2004): 133–138, hér 134.
26 Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 325–355, 287–310.