Saga - 2021, Qupperneq 110
íslenska sveitasamfélagsins mótaðist mjög af þessu. Þetta birtist oft
sem tvíhyggja þar sem breytni fólks er stillt upp sem and stæðu -
pörum, svo sem þagmælsku gegn slúðri, heiðarleika gegn undir -
ferli, sparsemi gegn eyðslusemi, vinnusemi gegn leti og svo fram-
vegis. Í íslensku sveitasamfélagi nítjándu aldar voru orðheldni, traust
og gestrisni meðal dyggða sem voru mikils metnar í samskiptum
fólks.35 Orðspor skipti líka miklu máli og almennt var fólki annt um
sitt eigið. Einnig var borin djúp virðing fyrir skrifuðum og prentuð -
um texta. Meðan nær allt prentefni var trúarlegs eðlis var stutt í það
viðkvæði að ef eitthvað stóð á prenti hlyti það að vera satt.36 Þetta
viðhorf lifði góðu lífi fram undir lok nítjándu aldar og átti líka við
skrif veraldlegra yfirvalda eins og kemur fram hjá Eiríki Eiríkssyni
(1828–1893) sem var meðal helstu heimildarmanna Jónasar frá
Hrafna gili við ritun Íslenskra þjóðhátta: „Eigi kvörtuðu bændur þá
opinberlega, þótt þeim virtist sveitargjald sitt ósanngjarnt, því þeir
vissu, að það sem sveitarstjórnin hafði eitt sinn skrifað, það hafði
hún skrifað og hlaut því að standa.“37 Bjarni Sigurðsson (1867–
1932), vinnumaður hjá Margréti Sigurðardóttur og Jóni Jónssyni,
presti í Bjarnanesi í Nesjum og síðar á Stafafelli í Lóni, á níunda ára-
tug nítjándu aldar, fangar í endurminningum sínum útbreitt viðhorf
til sannleikans í sveitasamfélagi nítjándu aldar og áhrif dyggða á
framkomu fólks: „Ósannindi þóttu mikil vanvirða. … Þessu fylgdi
sakleysi í hugsunarhætti. Menn ætluðu engum ilt. Þess vegna var
litið svo á, að það sem prentað var hlyti að vera satt, því engum
mundi detta sú ósvífni í hug að bera ósannindi á borð fyrir allan
almenning.“38
hrafnkell lárusson108
35 Jónas Jónasson (frá Hrafnagili), Íslenzkir þjóðhættir, 334–338, 382–388; Árni
Sigurðsson, „Í Breiðdal fyrir sextíu árum,“ í Breiðdæla: Drög að sögu Breiðdals,
Jón Helgason og Stefán Einarsson gáfu út (Reykjavík: Nokkrir Breiðdælir,
1948), 59–139, hér 119. Endurminningar Árna birtust upphaflega í grein í sex
hlutum í vesturíslenska blaðinu Lögbergi. Fyrsti hlutinn birtist í desember 1911
og sá síðasti snemma í febrúar 1912. Í honum kemur fram að Árni ritaði grein-
ina í apríl 1911.
36 Loftur Guttormsson, „Lestrarhættir og bókmenning,“ í Alþýðumenning á Íslandi
1830–1930: Ritað mál, menntun og félagshreyfingar, ritstj. Ingi Sigurðsson og
Loftur Guttormsson, Sagnfræðirannsóknir – Studia Historica, 18. bindi (Reykja-
vík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 2003), 195–214, hér 213.
37 Eiríkur Eiríksson, „Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld,“ Skagfirðingabók 14
(1985): 57–105, hér 86.
38 Bjarni Sigurðsson, „Minningar um frú Margrétu Sigurðardóttur frá Hallorms -
stað,“ Hlín 16 (1932): 65–81, hér 76.