Saga - 2021, Side 177
Íslandi með því að leggja áherslu á samskipti og valdaafstæður milli al -
menn ings og kjörinna fulltrúa ásamt tækifærum hinna fyrrnefndu til að
beita sér fyrir eflingu lýðræðis bæði með þátttöku í stjórnmálaflokkum og
félögum sem unnu að tilteknum pólitískum markmiðum. Hér er meðal ann-
ars fjallað um þau mál sem brunnu helst á austfirskum almenningi á síðasta
fjórðungi nítjándu aldar, til dæmis framfarir í menntamálum, samgöngum
og landbúnaði auk gagnrýni á valdhafa og stjórnmál. Það er athyglisvert í
þessu sambandi, sem ítrekað kemur fram í ritgerðinni, að áhuginn á sjálf -
stæðishetjum og sambandsmálinu, það er framtíðarsambandi Íslands og
Danmerkur, var takmarkaður í sveitablöðunum. Í þeim var meiri áhugi á
ýmsum umbótamálum sem tengdust daglegu lífi í sveitasamfélaginu. Einnig
hugar doktorsefnið að mikilvægi tungumálsins, þess að hafa tök á réttu
orðfæri, þegar kom að getu fólks til að láta til sín taka í almanna rýminu sem
og aukinni gagnrýni og andófi gegn yfirvaldi. Það er talið bæði til marks um
aukna þátttöku almennings í almannarýminu og minnkandi völd ráðandi
afla. Allt þetta telur doktorsefni til marks um að framfaratrúin sem ein -
kenndi hugmyndafræði hins nýja tíma hafi verið í þann mund að velta krist-
inni trúarmenningu sveitasamfélagsins úr sessi sem megineinkenni íslenskrar
menningar.
Í þriðja meginkafla ritgerðarinnar beinir höfundur sjónum sínum að
Austurlandi og hugtaki Bourdieus, doxa, sem Hrafnkell telur einkennandi
fyrir sveitasamfélagið á tíma rannsóknarinnar. Kaflinn snýst um þróun
almannarýmisins á Austurlandi með sérstakri áherslu á þátt félagasamtaka
og félagsstarfs í þeirri þróun. Fjallað er um samfélagsþróun á svæðinu í ljósi
búsetuþróunar, samgangna innanlands, Vesturheimsferða og alþýðumennt-
unar. Þá er umfjöllun um vald og valdaafstæður á Austurlandi en lögð er
áhersla á breytingar og félagslegan hreyfanleika með því að greina tækifæri
manna sem voru á jaðri hins staðbundna almannarýmis til að komast til
metorða innan valdsviðsins (e. field of power) og skoða breytingar á vald -
sviðinu, til að mynda með innleiðingu prestskosninga sem grófu undan
forræði ráðandi manna. Þá er litið til áhrifa þjóðmálablaða á austfirskt al -
manna rými en þau voru „áhrifaríkur hluti almannarýmisins þegar kom að
því að dreifa hugmyndum og skapa umræðu“ (190). Loks er rætt um félags-
starf á Austurlandi með áherslu á starf búnaðar-, lestrar-, bindindis-, kven-
og málfundafélaga auk sveita- og félagsblaða. Starfi þessara félaga er lýst,
einkum með áherslu á mikilvægi þeirra fyrir þátttöku fólks í almanna rým -
inu auk þeirra félagslegu þátta sem ýttu undir og hömluðu þess konar starf-
semi. Í kaflanum er kastljósinu beint að ákveðnu kynslóðabili þar sem hinir
yngri fetuðu sig ákveðið inn í nútímann á meðan hinir eldri stigu á brems-
una. Framganga hinna yngri er til dæmis undirstrikuð með frásögnum af
dansiðkun ungmenna. Greinilegt er að dansinn dunaði allvíða, að hinir
yngri bjuggu með því til nýtt félagslegt rými, dönsuðu sig inn í nýja tíma —
nútímann. Loks þrengir doktorsefni sjónarhornið enn frekar í síðasta hluta
andmæli 175