Saga - 2021, Side 160
Árið 2003 birtist eftir mig grein í Sögu sem nefndist „Aðferð í
uppnámi. Tuttugasta öldin vegin“.18 Um var að ræða samræðu um
þrennt: a) Sögu 2000 og þær greinar sem þar birtust, b) ritsmíðar
ungu sagn fræðinganna sem birtust í stéttartali sagnfræðinga og c)
aldarspegil Helga Skúla Kjartanssonar í bókinni Ísland á 20. öld og
þá aðferða fræðilegu nálgun sem þar var beitt. Aðferðin sem var í
uppnámi að mínu mati var yfirlitið, þessi árátta íslensku sögustofn-
unarinnar að vinna yfirlit um sögulega atburði. yfirlit einkenndi að
sjálfsögðu verk Helga Skúla en ég beindi ekki síður spjótum mínum
að sögustofnuninni í heild sinni og hvernig hún réði ráðum sínum.
Allan tíunda áratug tuttugustu aldar hafði ég fylgst með sagn -
fræð ingum um víða veröld gera tilraun til að brjótast undan ofur-
valdi stórsögunnar (e. grand narrative) og leggja áherslu á að nálgast
hópa fólks sem lágu óbættir hjá garði á nýjan og frjóan hátt — að
brjót ast undan „samfellusögunni“ en ræða fortíðina sem marg -
radda, óræða og óútreiknanlega.19 Gagnrýni mín á verk Helga Skúla
beindist meðal annars að þeirri hneigð íslenskra sagnfræðinga að
rita framfarasögu inn í form yfirlitsins og skáka þannig út af borð -
inu stórum hluta þjóðarinnar sem virtist ekkert eiga erindi inn í þá
ættrakningu. Einn var sá hópur sem lítið fór fyrir en það voru konur
og kynja fræði lega nálgun var hvergi að finna í verki Helga Skúla.
Þessi grein var óvenju hvöss og harðorð en mér fannst þegar þarna
var komið sögu þörf á að láta í mér heyra þannig að eftir yrði tekið.
En það voru fleiri en ég sem það gerðu. Gagnrýni Halldórs heit-
ins Bjarnasonar sagnfræðings í Fréttabréfi Sagnfræðingafélags Íslands
á aðferðafræði og áhersluatriði Helga Skúla var sannarlega hörð.
sigurður gylfi magnússon158
18 Sigurður Gylfi Magnússon, „Aðferð í uppnámi. Tuttugasta öldin vegin,“ Saga
41 (2003): 15–54. Sjá einnig: Helgi Skúli Kjartansson, Ísland á 20. öld (Reykjavík:
Sögufélag, 2002).
19 Sjá nokkur mjög svo þekkt verk sem unnu gegn hinum stórsögulegu áhrifum
á sagnfræðilega greiningu: Robert F. Berkhofer, Jr., Beyond the Great Story.
History as Text and Discourse (Cambridge, Mass.: Harvard University Press,
1995); Alun Munslow, Deconstructing History (London: Routledge, 1996); Con -
testing the Master Narrative. Essays in Social History, ritstj. Jeffrey Cox og Shelton
Stromquist (Iowa City: University of Iowa Press, 1998); Norman J. Wilson,
History in Crisis? Recent Directions in Historiography (Upper Saddle River, NJ:
Prentice Hall, 1999); Beyond the Cultural Turn. New Directions in Study of Society
and Culture, ritstj. Victoria E. Bonnell og Lynn Hunt (Berkeley, CA: University
of California Press, 1999). Þessa þróun alla ræði ég í umræddri grein: „Aðferð
í uppnámi,“ 20–24 og víðar.