Saga - 2021, Blaðsíða 115
nær en þær sem kirkjan hélt að þeim, báðar héldu þó á lofti ákveðn -
um dyggðum.52 Þessar menningarbreytingar gerði Kristleifur Þor -
steinsson (1861–1952) að umtalsefni fyrir miðja tuttugustu öld og
setti í samhengi við að rímur og trúarlegt efni tók að víkja fyrir forn-
sagnalestri í heimilismenningu á síðasta fjórðungi nítjándu aldar.
Þótt Kristleifur lýsti aðdáun sinni á fornsögunum sem bókmenntum
og teldi þær hafa styrkt ýmsar dyggðir þá gagnrýndi hann þau áhrif
sem birtust í því að ímyndir fornmanna voru heimfærðar á samtím-
ann svo snerist upp í „hóflausa fornaldardýrkun“, einkum meðal
drengja.53
Meðan nær allir landsmenn bjuggu í baðstofum og kvöldvökur
voru fastur þáttur í lífi fólks var einstaklingslestur erfiðleikum bund-
inn fyrir flesta. Hvað var haft um hönd á kvöldvökunni var á for -
ræði húsbænda og efni sem talið var geta spillt vinnugleði og sið -
ferði heimilisfólks (þar með töldum viðurkenndum hugmyndum
um kristindóm) var almennt litið hornauga.54 Sigurður Árnason
(1877–1952), sem var einn þeirra sem fór á mis við formlega menntun
umfram skyldunám þrátt fyrir löngun til lærdóms, sagði í sjálfsævi-
sögu sinni af kynnum sínum sem unglings af Njólu eftir Björn
Gunnlaugsson. Sigurður hreifst af Njólu en eldra fólk hafði ímugust
á bókinni og varaði við henni af því að hún þótti raska viðurkenndum
trúarkenningum. Það var raunar einmitt það sem Sigurður sagði að
Njóla hefði gert fyrir sig.55
Bréf Stefáns Árnasonar (1818–1905), þá aldraðs bónda og fyrrum
hreppstjóra í Gagnstöð í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði, sem
hann skrifaði Einari Jónssyni, presti í Kirkjubæ í Hróarstungu, í byrj-
un árs 1900 bregður upp mynd af breyttum tíðaranda og undan -
haldi kristinnar trúar sem ráðandi afls í íslenskri menningu. Mikill
íslenska dyggðasamfélagið 113
52 Sigurður Gylfi Magnússon, Sjálfssögur, 96; Sigurður Gylfi Magnússon, „Sið -
ferði legar fyrirmyndir á 19. öld,“ 62–64, 66–69.
53 Kristleifur Þorsteinsson, Úr byggðum Borgarfjarðar I (Reykjavík: Ísafoldar prent -
smiðja, 1944), 38.
54 Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Ljós, lestur og félagslegt taumhald,“ Ný saga 5
(1991): 62–66, hér 63–64; Guðmundur Hálfdanarson, „Private Spaces and
Private Lives: Privacy, Intimacy, and Culture in Icelandic 19th-Century Rural
Homes,“ í Power and Culture: New Perspectives on Spatiality in European History,
ritstj. Pieter François, Taina Syrjämaa og Henri Terho (Pisa: Plus-Pisa
University Press, 2008), 109–124, hér 117–121.
55 Sigurður Árnason, Með straumnum: Nokkrar æviminningar (Reykjavík: Bóka -
útgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, 1950), 66–68.