Saga - 2021, Side 164
hugsun og veruleika kvenna og karla sem skildu eftir sig fáa minnis-
varða á vegferð sinni í gegnum lífið.30
Eftir að þetta skeyti birtist hófst afar áhugaverð samræða um gildi
kynjasögunnar og merkingu kvennasögunnar á Gammabrekku. Það
sem var merkilegt við þessa samræðu var að „sögustofnunin“ tók
um síðir til harkalegrar varnar gegn gagnrýni Ingu Huldar en þeim
var svarað af sagnfræðingum, aðallega konum, sem voru búsettar á
víð og dreif. Þannig heyrðist hljóð úr horni frá Bergen (Agnes Arn -
órs dóttir), New york (Þorgerður H. Þorvaldsdóttir) og Reykja vík
(Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigríður Þorgrímsdóttir). Agnes Arn -
órsdóttir benti á að hægt væri að beita aðferðum kynjasögunnar
hvort sem væri á „sögu kvenna, eða sögu hestamennsku eða sögu
fiskveiða. Hugmyndin um kynferði hefur í fyrsta lagi mótað okkur
sem einstaklinga (ásamt líffræðilegum þáttum) og í öðru lagi eru
flestar stofnanir líka hugmyndafræðileg afurð kynferðis“.31
Eins og á þessu sést fór þarna af stað mjög uppbyggjandi sam -
ræða um stöðu kynjafræða sem ég held að hafi haft afar góð áhrif á
stóran hluta sagnfræðinga. Þorgerður heitin H. Þorvaldsdóttir sendi
til dæmis inn langt skeyti frá New york hinn 18. maí þar sem hún
ræddi meðal annars takmarkanir kvennasögunnar: „[…] hún sem
slík ógnar ekki þekkingarramma sagnfræðinnar, eða samfélagsins; er
og verður alltaf hliðargrein sem aldrei nær ein og sér að hreyfa við
kjarnanum. Gender eða kyn (kyngervi) hefur hinsvegar möguleika á
að spyrja spurninga sem rista dýpra — sem höggva nær kjarna sam-
félagsins.“32 Og þessum rökum var ég algjörlega sammála.
Þessari orðræðu allri eru gerð ítarlega skil í bókinni Sögustríð
eins og áður sagði.33 En ég reyndi í framhaldinu að gera grein fyrir
þeirri grundvallarhugsun sem ég taldi liggja að baki hinni kynja-
sögulegu nálgun. Í mörgum ritsmíðum sem fylgdu í kjölfarið sýndi
ég fram á hvernig kynjasagan ætti mikið meira erindi við sagnfræði
framtíðarinnar en margir kollegar mínir vildu vera láta. Ég skildi
alveg rök margra sagnfræðinga eins og Erlu Huldu Halldórsdóttur
sigurður gylfi magnússon162
30 Vef. Sigurður Gylfi Magnússon, „Þankar um kvenna- og kynjasögu,“ Gamma -
brekka 9. maí 1998. Sjá: Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 364–365.
31 Vef. Agnes Arnórsdóttir, „Frá Agnesi Arnórsd.“ Gammabrekka 12. maí 1998.
Sjá einnig: Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 366–367.
32 Vef. Þorgerður Þorvaldsdóttir, „Um gender, kynja- og kvennasögu,“ Gamma -
brekka 18. maí 1998. Sjá: Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 367.
33 Sigurður Gylfi Magnússon, Sögustríð, 364–376.