Saga - 2021, Side 129
hallt á móti heimili Hannesar. Það má því segja að líf hans hafi að
mestu verið bundið við örlítinn blett í Reykjavík. Hannes tók einnig
að sér ýmis trúnaðar- og félagsstörf, var til að mynda brunamála-
stjóri í Reykjavík 1907–1920 og var endurskoðandi bæjarreikninga
Reykjavíkur um skeið. Þá var hann kosinn formaður Hins íslenska
garðyrkjufélags við endurreisn þess 1. desember 1918 en Hannes
var einn þeirra sem stóðu að því. Garðyrkjuáhugann fékk hann í arf
frá föður sínum sem hóf mikið frumkvöðlastarf með gróðursetningu
í landfógetagarðinum við Austurstræti 20. Hannes var ókvæntur og
barnlaus. Hann lést á heimili sínu 17. maí 1931, tæplega 68 ára gamall.6
Í minningarorðum sem birtust um Hannes í Morgunblaðinu segir
Jón Helgason að æviferill hans hafi allur verið „ærið tilbreytinga-
laus“. Það liggur því beinast við að spyrja hvað maður sem lifði
slíku lífi skrifaði um í dagbækur sínar. Getur verið nokkuð áhuga -
vert þar að finna? Hér verður gripið niður í nokkra kafla í dagbók
Hannesar frá árinu 1918 en það ár er bæði áhugavert vegna þess hve
viðburðaríkt það var en einnig vegna þess að þá þróast dagbókar-
ritun Hannesar úr skráningarfærslum um garðrækt að mestu yfir í
ítarlegri hugleiðingar um fjölbreytt efni.
Dagbókin 1918
Dagbókin 1918 er ein sú efnismesta af dagbókum Hannesar. Það ár
skrifar Hannes nær daglegar færslur þó að einstaka sinnum falli út
dagar, jafnvel nokkrir í röð, og hún verður mun ítarlegri en áður.
Líkt og önnur ár skrásetur hann ýmislegt varðandi gróðurrækt en
hugleiðingar hans um önnur efni fá meira pláss en áður. Og tilefnin
til hugleiðinga eru sannarlega mörg þetta viðburðaríka ár. Í upphafi
árs, þegar frostaveturinn er í algleymingi, einkenna skrif um veður
og tíðarfar dagbókina. Hannes skrásetur hitastig hvers dags og segir
frá aðstæðum í bænum, hafís, frosinni jörð og frosnum vatnspípum.
Hann mælir hitann sjálfur en vísar einnig í dagblöðin varðandi hita-
stig. Ber hann tölurnar gjarnan saman við tölur frá frostavetrinum
mikla árið 1881. Hann segir frá aðstæðum í eigin lífi í þessu mikla
kuldakasti, jafnvel í nokkrum smáatriðum:
„mjer er farið að verða … skrafdrjúgt“ 127
6 Um Hannes, sjá Agnar Kl. Jónsson, Lögfræðingatal 1736–1963 (Reykjavík: Ísafold,
1963), 277–278; Dr. J. H., „Hannes Thorsteinson fyrv. bankastjóri,“ Morgunblaðið
24. maí 1931, 3; „Hannes Thorsteinsson bankastjóri,“ Óðinn 27, nr. 7–12 (1931),
68.