Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags - 01.01.1902, Blaðsíða 141
landsins (Nordkap) og hélt fram með ströndum Lapplands
(Kóla-skagans) lengst inn í Gandvík (til Kandalaksfjarðar?).
Ferðasagan er ljóst og skipulega samin og gefur glögga
hugmynd um afstöðu landanna á leið hans og íbúa þeirra
(sjá Timar. Bmf. V. 155 —158). Það er auðsætt, að fyrir
daga hans höfðu hvalveiðamenn ekki farið lengra norður
en 3 dagleiðir frá heimili hans, eða komist hálfa leið það-
an til nyrzta odda landsins. Alt var óbygt til Bjarma-
lands, nema á Kóia-skaganum er getið um »Terfinna«,
sem voru náskyldir Löppum og lifðu á veiðum. Fyrir
sunnan þá bjuggu Bjarmar, sem Ottari virtist tala nærri
því sömu tungu og Finnar1) (p: Lappar), og var land
þeirra albygt og vel ræktað. Mikil á skildi land þeirra
frá landi Terfinna, og ætla menn nú, að það hafi verið
Varzuga, en ekki Vína (Dvina), sem flestir Bjarmalands-
farar héldu síðan til. Eftir þetta eignuðu Noregskonung-
ar sér land alt til Gandvíkur, og var þá allur Kóla-skag-
inn (til Kandalaks) talinn til Noregsveldis. Síðan fóru
norrænir höfðingjar nokkrar herferðir og kaupferðir til
Bjarmalands, og er þess getið i konungasögum, að Har-
aldur gráfeldur hafi unnið sigur á Vínubakka (»gótt hlaup
gumna sættir | geirveðr í för þeiri | öðlingi fekst ungum |
orð á Vinuborði«, segir Glúmur Geirason). Nú er al-
ment talið, að Englendingurinn Richard Chancellor hafi
fyrstur fundið Hvítahafið (d: Gandvík) á ferð sinni árið
1553, en Norðmenn voru búnir að finna það mörgum
öldum áður.
Ferð Óttars hefir mikið vísindalegt gildi, og af henni
leiddi fleiri norðurferðir og landaleitir, eins og nú var
1) Af þessu hafa menn viljað ráða, að Bjarmar hafi
verið sama þjóðernis og Finnlendingar (Kirjálar), en þau
sanna varla meir en það, að þeir hafi verið einhver kvísl af
finska þjóðstofniuum (sbr. Perm, Perem).